• fös. 11. okt. 2013
  • Landslið

Kýpverjar lagðir í Laugardalnum

Island---Albania-2
Island---Albania-2

Íslendingar lögðu Kýpverja í kvöld í undankeppni EM fyrir framan troðfullan Laugardalsvöll.  Lokatölur urðu 2 - 0 fyrir Ísland og komu bæði mörkin í síðari hálfleik.

Íslenska liðið stjórnaði leiknum frá upphafi en gestirnir vörðust vel og var erfitt að brjóta þá á bak aftur.  Strákarnir fengu þó nokkur góð færi en þegar ungverski dómarinn flautaði til leikhlés var markalaust.

Sú staða hélst þangað til að 60 mínútur voru liðnar af leiknum.  Kolbeinn Sigþórsson fylgdi þá eftir skoti frá Jóhanni Berg Guðmundssyni og kom boltanum í netið og Laugardalsvöllur ætlaði að ganga af göflunum.  Það liðu svo 16 mínútur til viðbótar þegar önnur mikil fagnaðarbylgja fór yfir völlinn.  Eftir mikinn darraðadans kom Gylfi Þór Sigurðsson boltanum yfir marklínuna og þægileg tveggja marka forysta staðreynd.  Íslenska liðið hélt yfirhöndinni allan leikinn og fékk nokkur tækifæri til að bæta við mörkum en lokaniðurstaðan tveggja marka sigur.  Fögnuður leikmanna og áhorfenda ósvkinn í leikslok en sjaldan eða aldrei hefur stemningin á Laugardalsvelli verið líkt og í kvöld.  Algjörlega magnaður stuðningur.

Slóvenar lögðu Noreg örugglega á heimavelli, 3 - 0 og Sviss vann Albaníu á útivelli, 1 - 2.  Þetta þýðir að Sviss hefur tryggt sér efsta sætið og þar með þátttökurétt á HM í Brasilíu.  Ísland er í öðru sæti riðilsins með 16 stig en Slóvenía hefur 15 stig.  Þessar þjóðir berjast nú um annað sætið sem gefur möguleika á umspilsleikjum um laust sæti á HM. 

Ísland mætir Noregi í lokaleiknum í Osló og Slóvenía sækir Sviss heim.  Það er ljóst að með sigri er Ísland öruggt með annað sætið.  Jafntefli gegn Noregi dugir ef að Slóvenar vinna ekki Sviss.  Tapi Ísland hinsvegar í Osló þarf að treysta á að Sviss leggi Slóveníu að velli.  Það er því gríðarlega mikið undir í Osló á þriðjudaginn og þar verður mikill fjöldi Íslendinga til að styðja okkar lið.

Staðan í riðlinum