• þri. 19. apr. 2016
  • Dómaramál

Breytingar á knattspyrnulögunum 2016

Knattspyrnulogin-2017

Breytingar þær sem Alþjóðanefnd knattspyrnusambanda (IFAB) gerir á knattspyrnulögunum hverju sinni taka alla jafna ekki gildi fyrir en 1. júní ár hvert, en að fenginni heimild IFAB tók stjórn KSÍ þá ákvörðun að nýja útgáfa laganna skyldi gilda á Íslandi allt frá 25. apríl þegar Meistarakeppni KSÍ karla fer fram.

Þær breytingar sem nú eru gerðar í 2016-17 útgáfu knattspyrnulaganna fela í sér umfangsmestu endurskoðun á lögunum í gjörvallri 130 ára sögu IFAB og því er gríðarlega mikilvægt að knattspyrnuhreyfingin öll kynni sér þær af kostgæfni. 

Helstu breytingar

Viðamesta breytingin í lögunum er í ákvæðinu um brottvísun fyrir að ræna upplögðu marktækifæri. Í þeim tilfellum, inni í vítateig, þar sem ekki er um ásetningsbrot að ræða, skal dæma vítaspyrnu og gefa hinum brotlega gult spjald.

Nokkur önnur dæmi um breytingar eru:

  •  Ef markmaðurinn fer út af marklínunni í vítaspyrnu og spyrnan misferst/endurtekin, skal sýna honum gula spjaldið.
  • Við mat á rangstöðu telst varnarmaður, sem berst út fyrir leikvöllinn, einungis "virkur" þar til leikur hefur verður stöðvaður eða þangað til varnarliðið hefur náð að hreinsa boltanum út úr eigin vítateig í átt að miðlínunni. Eftir það er hann óvirkur alveg þangað til hann kemur aftur inn á völlinn.
  • Í upphafsspyrnu má senda boltann í hvaða átt sem er. Ekki er lengur nauðsynlegt að gefa boltann fram á við.
  • Dómara er nú heimilt að vísa leikmanni af velli allt frá því að hann mætir til vallarskoðunar.
  • Leikmaður sem verður fyrir meiðslum vegna brots sem leiðir til guls eða rauðs spjalds á mótherjann má fá stutta aðhlynningu inni á leikvellinum án þess að þurfa að yfirgefa völlinn að henni lokinni.
  • Að slá í höfuð/andlit þegar ekki er verið að sækja að mótherja er rautt spjald nema snertingin sé minniháttar/óveruleg.
  • Þegar bolti er látinn falla er dómara óheimilt að leikstýra niðurstöðunni. Boltinn verður einnig að hafa verið snertur af tveimur leikmönnum hið minnsta til að löglegt mark teljist hafa verið skorað.

Nýja íslenska útgáfan

Þar sem hin nýja útgáfa laganna var ekki reiðubúin til dreifingar frá IFAB fyrr en í byrjun apríl 2016 hefur ekki unnist tími til þess að þýða lagabókina í heild sinni yfir á íslensku. Í núverandi útgáfu er því eingöngu um að ræða íslenska þýðingu á sjálfum texta laganna og því fylgja hér ekki ýmsar skýringarmyndir o.þ.h. sem finna má í upprunalegu ensku útgáfunni. Því vísast beint til ensku útgáfunnar vegna þeirra.

Á vef KSÍ undir flipanum "dómaramál" er hægt að nálgast ensku útgáfu laganna ásamt íslensku ítarefni. Komi í ljós að sú íslenska þýðing, eða annað íslenskt kynningarefni um lögin, feli í sér einhverjar misfellur eða villur í þýðingu er það enska útgáfa laganna sem gildir. Í ensku útgáfu laganna er einnig að finna nokkra mikilvæga nýja kafla sem brýnt er að leikmenn, knattspyrnudómarar (og reyndar allir knattspyrnuáhugamenn) kynni sér vel, sér í lagi kaflana um "Details of all Law Changes" (bls. 116-157) og "Practical Guidelines for Match Officials" (bls. 170-200). KSÍ vinnur nú að íslenskri þýðingu á þessum köflum.

Til áherslu eru allar breytingar frá síðustu íslensku útgáfu laganna sem birtast hér,  stórar sem smáar, skyggðar með ljósbláu yfir textann.