• þri. 02. júl. 2019
  • Mannvirki
  • Stjórn
  • Landslið

Undirbúningsfélag um nýjan þjóðarleikvang stofnað

Þann 12. júní síðastliðinn undirrituðu fulltrúar KSÍ, Reykjavíkurborgar og ríkisins stofnsamning félags sem mun starfa að undirbúningi að mögulegri uppbyggingu þjóðarleikvangs í Laugardal. 

Núverandi Laugardalsvöllur uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra kappleikja – fyrir leikmenn, dómara og starfslið, fyrir fjölmiðla, fyrir vallargesti og þá sérstaklega aðgengi og aðstöðu fatlaðra. Miðað við núverandi aðstæður geta A landslið Íslands hvorki leikið á fyrstu né síðustu leikdögum innan hvers árs – í mars og nóvember – sem þýðir t.a.m. að A landslið karla byrjar hverja undankeppni stórmóts og lýkur henni á útivelli, sem er dragbítur á möguleikum liðsins að komast á stórmót. Við þetta má bæta að leikir í umspili undankeppni EM 2020 fara fram í mars. Óvíst er hvort hægt verði að leika slíkan leik á Laugardalsvelli.

Þann 11. janúar 2018 skipuðu ríkið og Reykjavíkurborg starfshóp til að skoða hugmyndir um þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu, leggja mat á þær og setja fram tillögur um mögulega uppbyggingu leikvangsins. Starfshópurinn skilaði ráðherrum og borgarstjóra skýrslu með bréfi dagsettu 3. apríl 2018. Fór þessi vinna fram á grundvelli tveggja ítarlegra skýrslna sem unnar höfðu verið 2015-2017 með aðkomu sömu aðila um mögulega uppbyggingu Laugardalsvallar. Starfshópurinn lagði til í skýrslu sinni að stofnað yrði undirbúningsfélag á vegum Reykjavíkurborgar, ríkisins og KSÍ. Það mikilvæga skref hefur nú verið tekið. Megintilgangur félagsins er að undirbúa lokaákvörðun um mögulega endurnýjun vallarins og undirbúa þá útboð um byggingu hins nýja mannvirkis. Það yrði gert í tveimur þrepum.

Með stofnun undirbúningsfélagsins er nú hafinn lokaáfangi að undirbúningsvinnu nýs þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnulandslið Íslands og fótboltann í heild sinni. Ljóst er að slíkt mannvirki, ef um fjölnota leikvang yrði að ræða, gæti nýst samfélaginu öllu.

KSÍ fagnar þessum áfanga og vonast til að komist verði að niðurstöðu eins fljótt og mögulegt er.

Mynd með grein:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net.