• fös. 11. okt. 2019
  • Landslið
  • A karla

A karla - 0-1 tap gegn Frakklandi

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland tapaði 0-1 fyrir Frakklandi á Laugardalsvelli, en það var Olivier Giroud sem skoraði mark Frakklands.

Leikurinn byrjað nokkuð fjörlega og tókst báðum liðum að halda boltanum vel á milli sín þegar tækifæri gafst til. Frakkar voru þó fljótir að ná ágætis tökum á leiknum, voru mikið með boltann en þó án þess að opna vörn Íslands að ráði.

Fyrsta skipting leiksins leit dagsins ljós eftir aðeins 14. mínútur. Jóhann Berg Guðmundsson fór þá útaf meiddur og inn á í hans stað kom Jón Daði Böðvarsson.

Frakkar fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Íslands á 27. mínútu, en skot Antoine Griezmann fór hátt yfir mark Íslands.

Það var Jón Daði sem átti svo fyrsta færi Íslands á 30. mínútu. Hann fékk þá boltann fyrir utan teig Frakka, en skot hans var varið af Steve Mandanda í marki Frakka. Tveimur mínútum síðar átti Birkir Bjarnason skalla yfir markið eftir hornspyrnu Gylfa Sigurðssonar.

Á 42. mínútu varði Hannes Halldórsson vel skot Griezmann, en hann var vel staðsettur í teignum en kom boltanum ekki í netið. Stuttu síðar átti Kingsley Coman skot í hliðarnetið.

Síðari hálfleikur byrjaði af krafti og áttu Frakkar ágætis aukaspyrnu eftir aðeins um fimm mínútna leik. Griezmann skot þá að marki utan af kanti, en Hannes varði auðveldlega. Stuttu síðar barst boltinn til Kolbeins í teig Frakkar, en skot hans úr þröngu færi fór af varnarmanni og í aftur fyrir endamörk.

Frakkar héldu áfram að vera meira með boltann og á 58. mínútu datt boltinn fyrir Griezmann rétt fyrir utan teig, en skot hans fór framhjá.

Það var svo á 66. mínútu sem Frakkland tók forystuna. Brotið var á Griezmann inn í vítateig Íslands, Olivier Giroud steig á punktinn og setti boltann í netið.

Á 72. mínútu kom Alfreð Finnbogason inn á fyrir Rúnar Má Sigurjónsson. Fimm mínútum síðar átti Blaise Matuidi skot í stöng eftir góðan sprett Kingsley Coman upp vinstri kantinn.

Ísland gerði sína síðustu skiptingu á 81. mínútu. Þá kom Arnór Sigurðsson inn á fyrir Arnór Ingva Traustason.

Strákarnir settu góða pressu á frönsku vörnina allt til loka leiksins, en þeim tókst ekki að skora og 0-1 tap gegn Frakklandi staðreynd.

Ísland mætir Andorra næst á mánudaginn og fer sá leikur fram á Laugardalsvelli og hefst kl. 18:45.