• fim. 14. nóv. 2019
  • Landslið
  • A karla

A karla - Markalaust jafntefli gegn Tyrklandi

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland gerði markalaust jafntefli gegn Tyrklandi í næstsíðasta leik liðsins í undankeppni EM 2020, en leikið var í Istanbúl.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn, þó Tyrkir hefðu verið ívið meira með boltann. Fá færi litu dagsins ljós, það besta án efa skalli Burak Yilmaz rétt yfir mark Íslands.

Alfreð Finnbogason fór meiddur af velli eftir 23.mínútna leik og í hans stað kom Arnór Sigurðsson inn á.

Staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Tyrkir komu sterkir inn í síðari hálfleikinn og byrjuðu hann betur. Þegar um 20 mínútur voru liðnar af honum fengu Tyrkir tvö ágætis færi, annað skot þeirra fór yfir á meðan Hannes Þór Halldórsson varði það síðara.

Á 63. mín kom Hörður Björgvin Magnússon inn á fyrir Arnór Ingva Traustason. Þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum var Ísland nálægt því að skora í tvígang, skalli Harðar Björgvins var varinn á línu og síðan komst markvörður Tyrkja fyrir boltann á undan Jóni Daða Böðvarssyni.

Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum kom Mikael Neville Anderson inn á fyrir Ara Frey Skúlason.

Bæði lið fengu færi undir lok leiksins, en hvorugu tókst að skora og markalaust jafntefli því staðreynd.