• fim. 25. jún. 2020
  • Mótamál
  • Mannvirki
  • Lög og reglugerðir

Vegna umfjöllunar um gervigrasvöll Egilshallar

Vegna umfjöllunar um gervigrasvöll Egilshallar í Reykjavík (leikflötinn, vallarleyfi, úttekt og fleira) vill KSÍ koma neðangreindu á framfæri.

Úttekt (prófun) á gervigrasi Egilshallar var framkvæmd 29. febrúar 2020 af Sports Labs Ltd., sem er óháð og viðurkennd rannsóknarstofa sbr. grein 8.4.3 í reglugerð KSÍ um knattspyrnuvelli. Vottun var útgefin af Sports Labs Ltd. og staðfest til KSÍ í mars 2020 með þeirri niðurstöðu að gervigrasið í Egilshöll standist settar kröfur.

Vallarleyfi Egilshallar (B-flokkur) var gefið út 26. mars 2020 og gildir til 31. desember 2021. Samkvæmt reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga eru vallarleyfi gefin út til allt að tveggja ára í senn.

Þess er auðvitað vænst af öllum hagsmunaaðilum (KSÍ, félögum, iðkendum, þjálfurum og öðrum) að nauðsynlegu viðhaldi sé sinnt á öllum knattspyrnuvöllum, hvort sem um ræðir náttúrulegt gras eða gervigras.

Það sem af er árinu 2020 hafa 42 leikir í meistaraflokki farið fram í Egilshöll (Reykjavíkurmót, Lengjubikar og önnur mót).

Lið dregið sem heimalið skal leika á heimavelli

Í grein 23.2.4 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót kemur fram varðandi bikarkeppni KSÍ  að draga skuli um hvaða lið mætist og „skal það lið sem dregið er á undan leika á heimavelli“.   Í grein 23.2.6 í sömu reglugerð kemur fram að mótanefnd sé „heimilt í vissum tilfellum að ákveða að leikur fari fram á hlutlausum velli ef rökstudd ósk þess efnis berst frá báðum aðilum sökum fjarlægðar eða annarra ástæðna.“

Mynd með grein: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net