• fim. 29. okt. 2020
  • Landslið
  • U21 karla

Mikil spenna fyrir síðustu leikjalotu U21 karla

U21 landslið karla átti að mæta Ítalíu á Víkingsvellinum í undankeppni EM í október, en leiknum var frestað vegna Covid-smits í röðum ítalska liðsins.  Riðillinn er gríðarlega jafn og mikil spenna er fyrir síðustu lotu leikja í riðlinum sem fram fer í nóvember.  Fjögur lið berjast um efstu tvö sæti riðilsins.  Ítalía og Írland eru með 16 stig, Svíþjóð og Ísland með 15 stig - Ítalía og Ísland hafa leikið 7 leiki, en önnur lið í riðlinum hafa leikið 8 leiki - Armenía og Lúxemborg eru bæði með 3 stig. 

Alls er leikið í níu riðlum í undankeppninni.  Liðin níu sem hafna í efsta sæti hvers riðils fara beint í lokakeppnina ásamt þeim fimm liðum úr riðlunum níu sem verða með bestan árangur í 2. sæti (14 lið).  Gestgjafarnir fá sæti í lokakeppninni, sem fer fram í tveimur löndum - Ungverjalandi og Slóveníu (2 lið).  Alls leika því 16 lið í lokakeppninni.

Leikur Íslands og Ítalíu hefur verið settur á 12. nóvember og er það fyrsti leikurinn í nóvember-lotunni, en Ísland leikur tvo útileiki eftir Ítalíu-leikinn - gegn Írlandi í Tallaght, sem er sunnan við Dublin, og svo gegn Armeníu, en þegar þetta er ritað hefur þeim leik ekki verið fundinn leikstaður.

U21 landslið karla

Mynd með grein:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net