• fim. 05. ágú. 2021
  • Mótamál
  • Evrópuleikir

Eins marks tap Breiðabliks í hörkuleik

Breiðablik mætti skoska liðinu Aberdeen á Laugardalsvelli í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar (UEFA Europa Conference League) í kvöld, fimmtudagskvöld.

Gestirnir byrjuðu leikinn betur og voru komnir í tveggja marka forystu snemma leiks - skoruðu eftir hornspyrnur á 3. og 11. mínútum leiksins.  Blikar létu þetta ekki slá sig út af laginu, tóku smám saman öll völd á vellinum með góðu spili og sköpuðu mikinn usla í vörn skoska liðsins, sem náði þó nokkrum hættulegum skyndisóknum.  Studdir dyggilega af frábærum stuðningsmönnum sínum náðu liðsmenn Breiðabliks að jafna metin.  Fyrst skoraði Gísli Eyjólfsson á 16. mínútu eftir góðan undirbúning Árna Vilhjálmssonar og Árni skoraði síðan sjálfur úr vítaspyrnu á 43. mínútu.

Síðari hálfleikur byrjaði að mörgu leyti eins og sá fyrri og Aberdeen náði forystunni að nýju með marki á 49. mínútu.  Nokkuð jafnræði var með liðunum eftir þetta og þrátt fyrir nokkur góð tækifæri tókst hvorugu liði að bæta við marki og lokatölur því 2-3 sigur Aberdeen.  Frammistaða Blikaliðsins í kvöld var afar góð gegn sterku liði gestanna og verður spennandi að sjá seinni viðureign liðanna, en þau mætast aftur í næstu viku á Pittodrie leikvanginum, heimavelli Aberdeen í Skotlandi.  

Allt um Sambandsdeildina á vef UEFA

Mynd:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net