• sun. 05. sep. 2021
  • Landslið
  • A karla

A karla - 2-2 jafntefli gegn Norður Makedóníu

Ísland og Norður Makedónía gerðu 2-2 jafntefli á Laugardalsvelli.

Norður Makedónar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og átti Ísland í erfiðleikum með að skapa sér færi. Darko Velkoski skoraði fyrsta mark leiksins á 12. mínútu og kom gestunum yfir. Þeir héldu áfram að vera betri aðilinn til loka fyrri hálfleiks, en fleiri mörk litu ekki dagsins ljós fyrir hlé.

Fyrri hluti síðari hálfleiks var svipaður og sá fyrri, gestirnir voru ívið sterkari aðilinn og bætti Ezgjan Alioski við marki á 54. mínútu. Íslenska liðið kom svo betur inn í leikinn þegar leið á síðari hálfleik og minnkaði Brynjar Ingi Bjarnason muninn þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum. Albert Guðmundsson átti þá ágætis aukaspyrnu sem markvörður Norður Makedóníu var í vandræðum með. Boltinn datt fyrir Brynjar Inga og setti hann boltann örugglega í netið. Á 82. mínútu kom Andri Lucas Guðjohnsen inn á völlinn og það tók hann aðeins tvær mínútur að koma boltanum í netið eftir góða sendingu frá Alberti.

Bæði lið áttu möguleika á því að skora sigurmarkið, en hvorugu tókst það og 2-2 jafntefli því staðreynd.

Ísland mætir Þýskalandi á miðvikudag í síðasta leik sínum í þessari þriggja leikja hrinu. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst hann kl. 18:45.