• lau. 04. jún. 2022
  • Landslið
  • A karla

A karla mætir Albaníu á mánudag

A landslið karla mætir Albaníu á Laugardalsvelli á mánudag í öðrum leik sínum í B-deild Þjóðadeildar UEFA á þessu ári.  Fyrsti leikur íslenska liðsins í keppninni var á fimmtudag, þegar leikið var gegn Ísraelum í Haifa og urðu lokatölur þar 2-2 jafntefli, í opnum og skemmtilegum hörkuleik þar sem bæði lið hefðu getað farið með sigur af hólmi. 

Leikurinn á mánudag hefst kl. 18:45 og er þetta fyrsti leikur Albaníu í keppninni, en eins og kunnugt er fara leikir Rússlands í riðlinum ekki fram, samkvæmt ákvörðun UEFA, og því mun ekkert lið falla úr riðlinum í C-deild.  Ísland og Albanía hafa mæst 7 sinnum áður í A landsliðum karla - Ísland hefur unnið fjóra leiki og Albanía þrjá.

Skoða fyrri viðureignir

Miðasalan á leikinn við Albaníu er í fullum gangi á Tix.is og er fólk hvatt til að skella sér á völlinn til að styðja við bakið á ungu og efnilegu landsliði.

Leikurinn verður í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Viaplay og einnig verður hægt að fylgjast með gangi mála á samfélagsmiðlum KSÍ.

A landslið karla

Miðasalan á Tix.is