• sun. 25. sep. 2022
  • Landslið
  • A karla

Allt undir í Albaníu

A landslið karla mætir Albaníu í lokaumferð Þjóðadeildar UEFA á þriðjudag. Ljóst er að Ísrael hafnar í efsta sæti riðilsins og leikur í A-deild Þjóðadeildarinnar næst þegar hún fer fram, og ekkert lið fellur úr riðlinum vegna ákvörðunar UEFA um að leikir Rússa skuli ekki leiknir.

Þrátt fyrir að efsta sæti riðilsins sé runnið báðum liðum úr greipum er um afar þýðingarmikinn leik að ræða. Góð úrslit í leiknum, og þar með 2. sæti riðilsins, geta þýtt sæti í 2. styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM 2024 í næsta mánuði og gefur jafnframt góða möguleika á sæti í Þjóðadeildar-umspili fyrir lokakeppni EM 2024, komist íslenska liðið ekki í lokakeppnina með því að lenda í öðru af tveimur efstu sætum síns riðils í undankeppninni. Það er því ljóst að mikið er undir og íslensku strákarnir munu gefa sig alla í verkefnið.

Leikurinn fer sem fyrr segir fram á þriðjudag í höfuðborg Albaníu, Tirana, á nýjum og glæsilegum þjóðarleikvangi Albana. Búast má við rafmögnuðu andrúmslofti eins og jafnan þegar Albanir eru á heimavelli. Ísland og Albanía hafa mæst 8 sinnum áður í A landsliðum karla. Ísland hefur unnið fjóra leiki, einu sinni hafa liðin skilið jöfn og þrisvar sinnum hefur Albanía fagnað sigri. Jafnteflið kom einmitt þegar liðin mættust á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni í júní á þessu ári.

Leikurinn á þriðjudag hefst kl. 18:45 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Viaplay.

A landslið karla