• fös. 11. nóv. 2022
  • Landslið
  • A karla

Tap í Suður Kóreu

A karla tapaði 0-1 gegn Suður Kóreu þegar liðin áttust við í vináttuleik í Hwaseong í Suður Kóreu.

Leikurinn hófst nokkuð rólega, heimamenn voru meira með boltann en tókst ekki að skapa sér teljandi marktækifæri. Danijel Dejan Djuric átti tvö ágætis skot, markvörður Suður Kóreu varði það fyrra en varnarmaður liðsins komst fyrir það seinna. Það var svo Suður Kórea sem skoraði fyrsta, og eina, mark leiksins á 33. mínútu þegar Minkyu Song skoraði með skalla. Óttar Magnús Karlsson var ekki langt frá því að jafna leikinn undir lok fyrri hálfleiks, en honum tókst ekki að koma boltanum á markið.

Heimamenn voru áfram sterkari aðilinn í síðari hálfleik en þeim tókst ekki að bæta við marki og 0-1 tap því staðreynd hjá íslenska liðinu.

Þessu fyrra nóvember verkefni er því lokið, en stutt er í næsta verkefni A karla þar sem Ísland tekur þátt í Baltic Cup í næstu viku. Ísland mætir þar Litháen 16. nóvember og svo annað hvort Lettlandi eða Eistlandi 19. nóvember.