• fös. 14. apr. 2023
  • Agamál

Áfrýjunardómstóll KSÍ hafnar kröfu KV

Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur kveðið upp dóm í máli nr. 2/2023 KV gegn Stjórn KSÍ, Kórdrengjum, Ægi, KFG, Hvíta Riddaranum, Hamri og Álafossi. Hefur áfrýjunardómstóll KSÍ hafnað kröfu KV um að felld verði úr gildi ákvörðun stjórnar KSÍ frá 18. febrúar 2023 að taka ekki til greina þátttökutilkynningu Kórdrengja vegna keppnistímabilsins 2023 og þess í stað flytja Knattspyrnufélagið Ægi í Lengjudeild karla í stað Kórdrengja. Kröfum KV um að staðfest verði að Kórdrengir uppfylli ekki skilyrði leyfiskerfis Knattspyrnusambands Íslands og að staðfest verði að Knattspyrnufélag Vesturbæjar skuli leika í Lengjudeild karla (næst efstu deild) sumarið 2023 er vísað frá aga- og úrskurðarnefnd.

Í niðurstöðukafla dómsins segir m.a.:
„Í undirritaðri þátttökutilkynningu Kórdrengja sem barst KSÍ 7. febrúar 2023 var Kaplakrikavöllur tilgreindur sem heimavöllur félagsins. Fyrir liggur í gögnum málsins að Kórdrengir höfðu ekki heimild til að nota Kaplakrikavöll sem heimavöll. Ekki verður séð á gögnum málsins að Kórdrengir hafi á einhverjum tímapunkti bætt úr þeim ágalla á þátttökutilkynningu sinni að tilkynna um völl, sem félagið hefði heimild til að leika á og fullnægði lágmarkskröfum reglugerðarinnar um leikvöll, hvorki innan þess frests sem veittur var af hálfu KSÍ eða síðar. Þegar af þeirri ástæðu og með vísan til gr. 13.4, sbr. og gr. 18.2 í reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót bar að hafna þátttökutilkynningu Kórdrengja enda augljóst að lið getur ekki tekið þátt í mótum á vegum KSÍ án þess að hafa til þess leikvöll sem fullnægir kröfum reglugerða KSÍ. Það er mat dómsins, með vísan til greinar 17.1.7. í lögum KSÍ, að stjórn KSÍ hafi verið til þess bær að taka ákvörðun um hvort taka ætti þátttökutilkynningu Kórdrengja til greina vegna keppni í 1. deild karla keppnistímabilið 2023. Dómurinn tekur undir það með aga- og úrskurðarnefnd að stjórn KSÍ hafi við endurröðun liða borið að miða við hina almennu reglu í gr. 23.1.11 og var Ægir því réttilega fluttur upp um deild í Lengjudeild karla vegna brottfalls Kórdrengja.“

„Að mati dómsins kemur aðeins til álita að beita grein 23.1.12 í reglugerð um knattspyrnumót um færslu liða á milli deilda ef félag fær ekki viðeigandi stig í hefðbundnu umsóknarferli skv. leyfiskerfi KSÍ. Af gögnum málsins verður ekki séð að Kórdrengir hafi verið leyfisumsækjandi í umsóknarferli skv. leyfiskerfi KSÍ. Hafi ákvörðun stjórnar KSÍ, sem tekin var þann 18. febrúar 2023, um færslu liða á milli deilda, því ekki getað tekið mið af grein 23.1.12. þar sem Kórdrengir tóku ekki þátt í hinu hefðbundna umsóknarferli, skv. leyfiskerfi KSÍ, sem jafnframt var á þeirri stundu fjarri því að vera lokið. Fallast ber á niðurstöðu hins áfrýjaða úrskurðar að samkvæmt gr. 7.2 og 7.3 í leyfisreglugerð KSÍ sé ljóst að úrskurðarvald er varðar veitingu þátttökuleyfis sé falið leyfisráði og eftir atvikum leyfisdómi. Því sé ljóst m.t.t. gr. 2.1 í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál að aga- og úrskurðarnefnd hafi ekki úrskurðarvald um það hvort þáttökuleyfi skuli veitt eða því hafnað. Sömuleiðis sé það aðeins á færi leyfisráðs KSÍ og eftir atvikum leyfisdóms að meta hvort skilyrði leyfiskerfis KSÍ séu uppfyllt.“

Dómur áfrýjunardómstóls KSÍ í máli nr. 2/2023