• fös. 16. feb. 2024
  • Agamál

Breytingar á reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál

Á fundi stjórnar KSÍ þann 14. febrúar var samþykkt breyting á reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.

Stofnuð var Málskotsnefnd KSÍ sem mun hafa eftirlit með knattspyrnuleikjum sem fram fara á Íslandi og getur nefndin, á grundvelli sérstakra heimilda, skotið málum til aga- og úrskurðarnefndar í aga- og/eða kærumálum. Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ ber að úrskurða í máli frá Málskotsnefnd svo fljótt sem verða má. Málskotsnefnd getur beint málum vegna meints alvarlegs agabrots í leikjum til aga- og úrskurðarnefndar en áður hafði framkvæmdastjóri KSÍ þessa heimild.

Málskotsnefnd skal skipuð þremur fulltrúum og þremur til vara. Nánar má lesa um Málskotsnefnd í 5. grein reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.

Nokkrar breytingar voru gerðar á fresti til kæru vegna knattspyrnuleikja sem fram fara á Íslandi. Kæra skal atvik sem fram fara í knattspyrnuleikjum á Íslandi, til aga- og úrskurðarnefndar, innan 48 klukkustunda frá því atvikið bar við. Nánar má lesa um frest til að kæra í 8. grein reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.

Í 13. grein reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál er fjallað um viðurlög við agabrotum. Þar segir: Þjálfari, starfsmaður eða forystumaður sem tekur út leikbann og mætir á leikstað skal vera meðal áhorfenda frá og með einni klukkustund fyrir leik. Á meðan leik stendur og eftir leik er viðkomandi þjálfara, starfsmanni eða forystumanni;

a) Óheimilt að vera á leikvellinum, boðvangi, í búningsherbergjum eða annars staðar þar sem
hann getur verið í tengslum við lið sitt,

b) Óheimilt að vera í samskiptum við eða hafa samband við einstaklinga tengdum leik, sér í lagi
leikmenn og starfsfólk liðsins á meðan leik stendur, og

c) Óheimilt að taka þátt í blaðamannafundi eftir leik eða hvers konar fjölmiðlastarfsemi á leikvangi
í tengslum við leik þann sem þjálfari tekur út leikbann.

Reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.

Dreifibréf 3/2024 - Málskotsnefnd og kærufrestir.