• mið. 06. sep. 2023
  • Agamál

Dómur áfrýjunardómstóls í máli Halldórs Árnasonar

Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur kveðið upp dóm í máli nr. 5/2023 Halldór Árnason gegn Aga- og úrskurðarnefnd. Með bréfi dags. 24. ágúst var áfrýjunarbeiðni Halldórs Árnasonar á úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KSÍ frá 15. ágúst 2023 eins leiks bann samþykkt á grundvelli sérstakra ástæðna.

Hefur áfrýjunardómstóll KSÍ nú tekið málið fyrir og vísað frá áfrýjun Halldórs Árnasonar á úrskurði aga- og úrskurðarnefndar um eins leiks bann.

Í niðurstöðukafla dómsins segir m.a.:

Að mati dómsins verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að áfrýjanda hafi sannanlega verið veitt brottvísun af dómara vegna atviks eftir leik KA og Breiðabliks í Bestu deild karla þann 13. ágúst sl. Atvik hafi skv. skýrslu dómara átt sér stað eftir að leik lauk þegar dómarar leiksins voru að fara út úr klefa sínum. Í 5. grein knattspyrnulaganna er m.a. fjallað um heimildir dómara til að beita agarefsingum, þ.m.t. heimild dómara til að sýna gul eða rauð spjöld. Samkvæmt því hefur dómari leiks heimild til þess að grípa til agarefsinga frá þeirri stundu sem hann hefur vallarskoðun við komu sína á leikstað og þar til hann hefur yfirgefið völlinn að leik loknum (þ.m.t. eftir vítaspyrnukeppni). Ef leikmaður gerist sekur um brottrekstrarverða hegðun áður en hann fer inn á völlinn við upphaf leiks þá hefur dómarinn vald til þess að meina honum þátttöku í leiknum. Þá segir að dómarinn hafi heimild til þess að sýna gul eða rauð spjöld, og þar sem mótareglur heimila, til að vísa leikmönnum tímabundið af leikvelli, allt frá því að hann kemur inn á völlinn við upphaf leiks þar til að leik er lokið, þ.m.t. í hálfleik og á meðan á framlengingu eða vítaspyrnukeppni stendur. Alla aðra óviðeigandi hegðun ber dómara að tilkynna um sérstaklega í skýrslu sinni. Leikvöllur er nánar skilgreindur í 1. grein knattspyrnulaganna.

Fyrir liggur í málinu að áfrýjandi hefur þegar tekið út sjálfkrafa leikbann vegna brottvísunar í samræmi við grein 12.1.2. reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál og úrskurð aga- og úrskurðarnefndar frá 15. ágúst 2023. Af þeim ástæðum er það álit áfrýjunardómstóls að áfrýjandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um kröfur sínar.

Með vísan til þessa er áfrýjun Halldórs Árnasonar á úrskurði aga- og úrskurðarnefndar um eins leiks bann frá 15. ágúst 2023 vísað frá áfrýjunardómstóli.“

Dómur áfrýjunardómstóls