• mán. 24. júl. 2023
  • Landslið
  • U19 kvenna

3-1 tap í Belgíu

U19 lið kvenna mætti Frökkum í sannkölluðum úrslitaleik í síðustu umferð riðlakeppni á EM í Belgíu. Bæði lið áttu möguleika á að komast áfram í undanúrslit og var því allt undir.

Íslenska liðið kom gríðarlega sterkt til leiks og mætti Frökkum af mikilli ákefð enda voru Frakkar í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga. Íslenska liðið hafði mikla stjórn á leiknum. Það dróg þó til tíðinda á 27. mínútu þegar Frakkar komust yfir, íslenska liðið lét það ekki hafa áhrif á sig og jafnaði leikinn á 33. mínútu með frábæru marki frá Bergdísi Sveinsdóttur, Bergdís var sú fyrsta og eina til að skora mark á Frakka í riðlakeppninni. Frakkar fengu hornspyrnu í viðbótartíma í fyrri hálfleik og náðu að komast yfir, staðan í hálfleik var því 2-1 fyrir Frakklandi.

Bæði lið komu ákveðin inn í síðari hálfleik og var mikil barátta í báðar áttir, bæði lið fengu mörg góð tækifæri en inn vildi boltinn ekki. Það var þó á 89. mínútu þegar Frakkar fá aðra hornspyrnu og innsigla 3-1 sigur.

Frakkland endar riðlakeppnina því efst með níu stig, Spánn kemur á eftir þeim með sex, Ísland í þriðjasæti með þrjú stig og að lokum Tékkland neðstir með núll stig. Frakkland og Spánn fara því í undanúrslit með Þýskalandi og Hollandi.