• fös. 18. ágú. 2023
  • Mótamál
  • Evrópuleikir

KA úr leik og Breiðablik í umspil í Sambandsdeild Evrópu

KA er úr leik í Sambandsdeild Evrópu eftir að hafa tapað 5-1 fyrir belgíska félaginu Club Brugge á Laugardalsvelli á fimmtudag. Mark KA skoraði Pætur Joensson Petersen. Fyrri leikur þessara liða fór einnig 5-1 fyrir Club Brugge og þeir unnu einvígið því samtals 10-2.

Breiðablik tók á móti Zrinjski Mostar frá Bosníu í 3. umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudag. Breiðablik vann 1-0 sigur í leiknum en Bosníumenn unnu fyrri leikinn 6-2 og því dugði sigur Blika ekki til. Mark Blika var sjálfsmark andstæðinganna. 

Breiðablik er úr leik í forkeppni Evrópudeildarinnar en heldur sér þó áfram í Evrópukeppni og færist í umspil um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Þar mætir Breiðablik Struga FC frá Norður-Makedóníu. Fyrri leikur einvígisins fer fram þann 24. ágúst í Ohrid í Norður-Makedóníu og síðari leikurinn þann 31. ágúst á Kópavogsvelli.