• mið. 06. sep. 2023
  • Mótamál
  • Evrópuleikir

Valur í úrslitaleikinn en Stjarnan úr leik

Valur vann 2-1 sigur gegn Fomget Gençlik frá Tyrklandi í undanúrslitum í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar kvenna í dag, miðvikudag. 

Þórdís Elva Ágústsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 28. mínútu. Ásdís Karen Halldórsdóttir tvöfaldaði forystu Vals með marki á 33. mínútu. Birgül Sadikoglu skoraði fyrir Fomget Gençlik á 47. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og Valskonur gátu því fagnað sterkum sigri að leik loknum. 

Með sigrinum tryggði Valur sér úrslitaleik um laust sæti í næstu umferð keppninnar. Úrslitaleikurinn fer fram á laugardaginn þar sem Valur mætir annað hvort Vllaznia frá Albaníu eða Hajvalia frá Kósóvó. 

Stjarnan mætti í dag Levante frá Spáni. Levante vann 4-0 sigur en öll mörk leiksins voru skoruð í síðari hálfleik.

Þar með er Stjarnan úr leik í Meistaradeildinni en á þó einn leik eftir. Á laugardaginn mæta þær annað hvort Twente frá Hollandi eða Sturm Graz frá Austurríki.

Hér má lesa nánar um mótið á vef UEFA.