• fim. 21. mar. 2024
  • Landslið
  • A karla

Ísland í úrslit umspilsins fyrir EM 2024!

Ísland vann frábæran 4-1 sigur gegn Ísrael í undanúrslitum umspilsins fyrir EM 2024!

Leikurinn fór fram á Szusza Ferenc Stadion í Búdapest.

Ísrael tók forystuna á 31. mínútu þegar Eren Zahavi skoraði af vítapunktinum, en íslenska liðið hafði verið ívið betra liðið fram að því og stuttu áður verið nálægt því að skora fyrsta mark leiksins.

Ísland hélt áfram að spila vel eftir að hafa lent undir og átta mínútum síðar jafnaði Albert Guðmundsson með frábærri aukaspyrnu og þremur mínútum síðar kom Arnór Ingvi Traustason Íslandi yfir, 2-1. Ekki litu fleiri mörk dagsins ljós í fyrri hálfleik og Ísland í fínni stöðu í hálfleik.

Leikurinn hélt áfram að spilast líkt og sá fyrri og var Ísland ívið hættulegra fram á við, en þegar tæpar 20 mínútur voru eftir af leiknum var Roy Revivo rekinn útaf eftir hættulega tæklingu á Arnóri Sigurðssyni. Ísland orðið einum fleiri, en þrátt fyrir það fengu Ísraelar aftur víti þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Zahavi steig aftur á punktinn, en í þetta skiptið setti hann boltann framhjá. Íslenska liðið gekk á lagið og Albert Guðmundsson bætti við tveimur mörkum, á 83. og 87. mínútu, og glæsilegur 4-1 sigur því staðreynd.

Ísland er því búið að tryggja sér sæti í úrslitaleik um sæti á EM 2024 gegn Úkraínu þriðjudaginn 26. mars. Sá leikur fer fram á Tarczynski Arena Wroclaw í Wroclaw í Póllandi og hefst hann kl. 19:45 að íslenskum tíma. Upplýsingar um miðasölu á leikinn verða tilkynntar fljótlega.