• mið. 06. jún. 2001
  • Landslið

Ósanngjörn úrslit gegn Búlgörum

Ekki er hægt að segja annað en að úrslitin í leik Íslands og Búlgaríu í undankeppni HM í kvöld hafi verið afar svekkjandi, en liðin gerðu 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli. Atli Eðvaldsson, þjálfari A landsliðs karla, stillti upp sterku liði sem stjórnaði leiknum í 80 mínútur og ef góð færi hefðu verið nýtt í seinni hálfleik hefði íslenska liðið hælega getað verið þremur mörkum yfir.

Ríkharður Daðason kom Íslandi yfir með skallamarki eftir aukaspyrnu á markamínútunni, þeirri 43., og piltarnir okkar leiddu 1-0 í leikhléi, fyllilega verðskuldað. Í seinni hálfleik réði íslenska liði lögum og lofum á vellinum, Helgi Sigurðsson og Heiðar Helguson, sem kom inn á fyrir Ríkharð í hálfleik, nýttu ekki mjög góð færi til að bæta við forystuna á meðan gestirnir ógnuðu lítið sem ekkert. Búlgarar jöfnuðu leikinn á 82. mínútu gegn gangi leiksins með marki frá Dimitar Berbatov, sem fylgdi eftir skoti sem Árni Gautur varði en náði ekki að halda. Það sem eftir lifði leiks voru gestirnir mun sterkari og hefðu getað bætt við marki ef ekki hefði verið fyrir góða staðsetningu Eyjólfs Sverrissonar, sem bjargaði á marklínu. Lokatölur leiksins urðu því 1-1 og er Ísland með 10 stig í 4. sæti riðilsins.

Þrátt fyrir vonbrigðin í kvöld hefur íslenska liðið náð að rétta verulega úr kútnum eftir erfiða byrjun og enn eru möguleikar á að velgja öðrum liðum í riðlinum verulega undir uggum.

Byrjunarlið | Hópurinn