• lau. 04. jún. 2005
  • Landslið

Ungverskur sigur á Laugardalsvellinum

Zoltan Gera - fyrirliði Ungverja
zoltan_gera

Ungverjar unnu í kvöld 3-2 sigur á Íslendingum á Laugardalsvelli í undankeppni HM 2006. Sigur þeirra verður að teljast ósanngjarn því íslenska liðið lék vel lengst af og hefði átt skilið að minnsta kosti eitt stig úr leiknum.

Eiður Smári Guðjohnsen kom íslenska liðinu yfir strax á 18. mínútu með glæsilegu marki og var forystan verðskuldum. Okkar piltar voru mun sterkari en Ungverjar allan fyrri hálfleikinn, en þó náðu gestirnir að jafna metin skömmu fyrir hlé úr umdeildri vítaspyrnu frá fyrirliðanum Zoltan Gera.

Eftir hlé var nokkuð jafnræði með liðunum, en Zoltan Gera kom Ungverjum yfir úr annarri vítaspyrnu sinni í leiknum á 56. mínútu, sem þótti ekki síður umdeild en sú fyrri.

Ólafur Örn Bjarnason fékk að líta áminningu í kjölfar beggja vítaspyrnudómanna og var því vísað af leikvelli í seinna tilvikinu.

Okkar piltar lögðu þó ekki árar í bát, sóttu af krafti að ungverska markinu og uppskáru stórkostlegt mark á 68. mínútu frá bakverðinum Kristjáni Erni Sigurðssyni, sem hamraði boltann í skeytin fjær eftir sendingu frá Eiði Smára.

Sigurmark Ungverja kom fjórum mínútum síðar og var þar að verki Szabolcs Huszti, sem braut sér leið inn í vítateiginn vinstra megin og renndi boltanum undir Árna Gaut í markinu.

Íslenska liðið átti alls ekki skilið að tapa leiknum í kvöld. Leikmennirnir börðust af miklum krafti og höfðu öll völd á vellinum á löngum köflum. Báðir vítaspyrnudómarnir voru umdeildir og er aldrei að vita hvað hefði gerst ef til þeirra hefði ekki komið.

Næsti leikur liðsins er gegn Möltu á Laugardalsvellinum á miðvikudag kl. 18:05.