• mán. 03. okt. 2005
  • Landslið

U19 kvenna áfram þrátt fyrir tap gegn Rússum

EM U19 landsliða kvenna
em_u19_kvenna

Þrátt fyrir 1-5 tap gegn Rússum í lokaumferð undankeppni EM U19 liða kvenna komst Ísland áfram í milliriðla, sem fram fara í apríl á næsta ári. Greta Mjöll Samúelsdóttir gerði mark Íslands gegn Rússum.

Rússneska liðið var einfaldlega of sterkt fyrir það íslenska og var sigurinn nokkuð öruggur, eins og tölurnar gefa til kynna. Mark Gretu Mjallar kom á 74. mínútu leiksins, hennar 6. mark í undankeppninni.

Rússar unnu riðilinn með yfirburðum, skoruðu alls 32 mörk, en eina markið sem liðið fékk á sig var gegn Íslandi á laugardag. Georgía hafnaði í neðsta sæti riðilsins án stiga, ekkert mark skorað en 40 mörk fengin á sig.