• þri. 15. nóv. 2005
  • Fræðsla

Ólafur og Úlfar þjálfarar ársins hjá KÞÍ 2005

Þjálfarar ársins 2005 - Ólafur Jóhannesson og Úlfar Hinriksson
kthi_thjalfarar_arsins_2005

Á aðalfundi  KÞÍ - Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands 12. nóvember síðastliðinn voru Ólafur Jóhannesson þjálfari FH og Úlfar Hinriksson þjálfari Breiðabliks útnefndir þjálfarar ársins í Landsbankadeildum karla og kvenna fyrir árið 2005.

Báðir náðu þeir mjög góðum árangri með lið sín í sumar og því vel að útnefningunni komnir.

Ólafur hóf þjálfaraferilinn fyrir tuttugu og fjórum árum þegar hann þjálfaði meistaraflokk og þriðja flokk karla hjá Einherja á Vopnafirði.  Síðan þá hefur hann eingöngu þjálfað meistaraflokk karla. Ólafur hefur þjálfað tvisvar hjá Skallagrími í Borgarnesi og hefur einnig þjálfað hjá Þrótti Reykjavík, Haukum og Selfossi en, mest hefur hann þjálfað hjá FH.  Ólafur hefur þrisvar verið ráðinn til starfa þar á bæ, nú síðast haustið 2002.  Í ár varð FH Íslandsmeistari undir stjórn Ólafs annað árið í röð.  Ólafur er vel menntaður þjálfari og hefur hann lokið UEFA B þjálfaragráðu.  Þetta er í fjórða sinn sem Ólafur er kjörinn þjálfari ársins hjá KÞÍ, en fyrst hlaut hann þessa viðurkenningu árið 1996.

Úlfar Hinriksson er 33 ára íþróttakennari að mennt og hefur lokið öllum stigum KSÍ samkvæmt eldra menntunarkerfi sambandsins.   Úlfar stýrði Breiðabliki til sigurs í deild og bikar í sumar á sínu fyrsta ári sem meistaraflokksþjálfari.  Hann hóf þjálfaraferil sinn hjá Víkingi árið 1994 og var þar í eitt ár áður en hann tók að þjálfa hjá Breiðablik þar sem að hann þjálfaði yngri flokka í níu ár með mjög glæstum árangri. Síðustu þrjú árin hjá Breiðablik gegndi hann einnig stöðu yfirþjálfara. Haustið 2004 tók Úlfar svo við meistaraflokki kvenna ásamt því að gegna starfi yfirþjálfara hjá Breiðabliki.   Úlfar þjálfaði U21 kvennalandslið Íslands árin 2003 og 2004. Árið 2004 náði Ísland besta árangri sínum frá upphafi í Opna Norðurlandamótinu þegar liðið fór taplaust í gegnum mótið og lagði Þýskaland í vítakeppni í leik um 5. sætið. Árin 2003 og 2004 gegndi Úlfar einnig starfi aðstoðarmanns hjá Helenu Ólafsdóttur, A landsliðsþjálfara kvenna.   Úlfar hefur verið duglegur að sækja sér fróðleik bæði innanlands og utan og hefur meðal annars dvalist í Danmörku, Englandi, Þýskalandi og á Ítalíu.

Viðurkenning fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka

Aðalsteinn Aðalsteinsson, Garðar Smári Gunnarsson og Sævar Þór Gylfason hlutu viðurkenningu fyrir vel unnin störf við þjálfun yngri flokka á aðalfundi KÞÍ.  Allir hafa þeir lagt mikinn metnað í þjálfunina og verið knattspyrnuþjálfarastéttinni til sóma við störf sín.