• mán. 12. des. 2005
  • Landslið

Eiður Smári og Ásthildur knattspyrnufólk ársins 2005

Leikmannaval KSÍ
Leikmannaval_logo

Leikmannaval KSÍ hefur valið Eið Smára Guðjohnsen og Ásthildi Helgadóttur knattspyrnufólk ársins 2005.  Tilkynnt var um valið í hófi á Hótel Nordica á mánudagskvöld að viðstöddu fjölmenni, í beinni útsendingu á Sýn, Stöð 2 og NFS.

Knattspyrnufólk ársins 2005

Knattspyrnumaður ársins - Eiður Smári Guðjonhnsen

Eiður Smári Guðjohnsen

Eiður Smári varð síðastliðið vor fyrsti Íslendingurinn sem hampar enska meistaratitlinum, en það gerði hann með liði sínu, Chelsea.  Markamet Ríkharðs Jónssonar með íslenska landsliðinu er innan seilingarfjarlægðar Eiðs, sem lék á árinu 5 landsleiki og skoraði í þeim 3 mörk.  Alls eru landsliðsmörk hans því orðin 16 í 39 landsleikjum. 

Eiður Smári Guðjohnsen er sannarlega glæsilegur fulltrúi íslenskrar knattspyrnu.

Knattspyrnukona ársins - Ásthildur Helgadóttir

Alidkv2003-0318

Ásthildur var á árinu einn af lykilleikmönnum liðs Malmö í sænsku úrvalsdeildinni og þótti á meðal bestu leikmanna deildarinnar.  Hún er ekki bara fyrirliði landsliðsins, heldur er hún bæði leikja- og markahæsti leikmaður kvennalandsliðs Íslands frá upphafi – hefur leikið alls 61 A-landsleik og skorað í 20 mörk.

Ásthildur Helgadóttir er án nokkurs vafa frábær fulltrúi íslenskrar knattspyrnu.

2. sæti karla - Hermann Hreiðarsson

Hermann hefur leikið 64 sinnum með A-landsliði Íslands og er á meðal landsleikjahæstu leikmanna okkar fyrr og síðar.  Hann er einn af máttarstólpum liðs Charlton í ensku úrvalsdeildinni og hefur leikið vel á þriðja hundrað deildarleikja á ferlinum, en þar af er rúmlega helmingurinn í úrvalsdeildinni ensku.

2. sæti kvenna - Margrét Lára Viðarsdóttir

Margrét Lára var lykilmaður í íslenska landsliðinu á árinu, sem og í liði Vals, sem náði einstökum árangri í Evrópukeppni félagsliða kvenna.  Hún var markahæsti leikmaður Landsbankadeildar kvenna annað árið í röð með 23 mörk.  Margrét Lára lék fjóra landsleiki á árinu, skoraði í þeim 2 mörk og hefur nú skorað 13 mörk í aðeins 18 landsleikjum.

3. sæti karla - Gunnar Heiðar Þorvaldsson

Eyjamaðurinn Gunnar Heiðar sló heldur betur í gegn í ár með liði sínu, Halmstad.  Hann skoraði 16 mörk og var markahæsti leikmaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni.  Gunnar Heiðar lék sína fyrstu A-landsleiki á árinu og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark.

3. sæti kvenna - Þóra Björg Helgadóttir

Þóra Björg stóð sem klettur í marki íslenska landsliðsins á árinu og fór fyrir liði sínu, Breiðabliki, sem hampaði bæði Íslands- og bikarmeistaratitlinum.  Þóra lék fjóra landsleiki í ár og hefur nú alls leikið 41 landsleik.

leikmannaval2005-0604

Efri röð: 

Hermann Hreiðarsson, Margrét Lára Viðarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir.

Neðri röð: 

Eiður Smári Guðjohnsen og Ásthildur Helgadóttir.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson var staddur í Egyptalandi og tók móðir hans, Sólveig Gunnarsdóttir við viðurkenningunni fyrir hans hönd. 

Í viðurkenningarskyni hlutu leikmennirnir glervasa, sem hannaðir eru og smíðaðir af Jónasi Braga Jónassyni, listamanni.