• mið. 04. jan. 2006
  • Landslið

Eiður Smári íþróttamaður ársins annað árið í röð

Þóra B. Helgadóttir,  Ásthildur Helgadóttur, Eiður Smári Guðjohnsen og Gunnar heiðar Þorvaldsson - Mynd:  Sigurjón Ragnar
ithrottamadur_arsins_2005

Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var á þriðjudagskvöld krýndur íþróttamaður ársins 2005 af samtökum íþróttafréttamanna. Þetta er annað árið í röð sem Eiður hlýtur þennan heiður.

Allir þeir íþróttafréttamenn sem tóku þátt í kjörinu settu Eið Smára í efsta sætið og hlaut hann því fullt hús stiga. Íþróttamaður ársins hlýtur m.a. hálfrar milljónar króna peningagjöf frá Íslandsbanka og mun Eiður Smári afhenda félaginu Einstökum börnum ávísunina.

Þetta var í síðasta sinn sem styttan sem fylgt hefur kjörinu frá upphafi er afhent, en í reglugerð um kjörið segir að hana skuli afhenda í fimmtíu skipti en fela síðan Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu.

Það voru þeir Atli Steinarsson, einn af stofnendum Samtaka íþróttafréttamanna, og Vilhjálmur Einarsson, sem fyrstur var kjörinn íþróttamaður ársins, sem afhentu Eiði Smára styttuna.

Knattspyrnumenn skipuðu fimm af sjö efstu sætunum í kjörinu og alls komust níu knattspyrnumenn á blað. Alls fengu 29 íþróttamenn atkvæði í kjörinu, en þeir eru:

Eiður Smári Guðjohnsen, 460
Guðjón Valur Sigurðsson, 287
Ásthildur Helgadóttir, 203
Jón Arnór Stefánsson, 131
Þóra B. Helgadóttir, 78
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, 72
Hermann Hreiðarsson, 71
Ólöf María Jónsdóttir, 58
Snorri Steinn Guðjónsson, 46
Jakob Jóhann Sveinsson, 37
Róbert Gunnarsson, 34
Jón Oddur Halldórsson, 29
Sigurður Sigurðarson, 29
Birgir Leifur Hafþórsson, 25
Þórey Edda Elísdóttir, 21
Árni Gautur Arason, 19
Björn Þorleifsson, 16
Heiðar Davíð Bragason, 12
Ólafur Stefánsson, 11
Kristjana Sæunn Ólafsdóttir, 10
Arnar Sigurðsson, 7
Margrét Lára Viðarsdóttir, 4
Ragnhildur Sigurðardóttir, 4
Þormóður Jónsson, 4
Björgvin Björgvinsson, 3
Kristín Rós Hákonardóttir, 3
Berglind Hansdóttir, 2
Greta Mjöll Samúelsdóttir, 2
Grétar Rafn Steinsson, 1