• mið. 15. nóv. 2006
  • Leyfiskerfi

Leyfisferlið fyrir tímabilið 2007 hafið

Keppnisvellir þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði
Kaplakriki_001

Leyfisferlið fyrir keppnistímabilið 2007 hófst í dag, 15. nóvember, eins og kveðið er á um í leyfishandbók KSÍ.  Þeim félögum sem sækja um þátttökuleyfi í Landsbankadeild karla og 1. deild karla 2007 hafa verið sendar nauðsynlegar upplýsingar, áður en vinna við leyfisumsókn hefst.

Þetta verður í 5. sinn sem íslensk félög undirgangast leyfiskerfi KSÍ, en hingað til hafa einungis félög í Landsbankadeild karla undirgengist kerfið.  Fyrir keppnistímabilið 2007 mun kerfið hins vegar í fyrsta sinn ná til tveggja efstu deilda karla og er markmiðið að minnka þannig bilið milli efstu deildar og 1. deildar karla með því að auka gæðakröfur í 1. deild.

Kröfurnar fyrir 1. deild eru nokkru minni en í Landsbankadeild, en þó ekki á öllum sviðum.  Ný leyfishandbók, útgáfa 2.0, hefur verið tekin í notkun fyrir leyfisferlið sem nú er að hefjast.

Uppfylla þarf fjölmargar forsendur í fimm meginflokkum:

  • Knattspyrnulegar forsendur
  • Mannvirkjaforsendur
  • Starfsfólk og stjórnun
  • Lagalegar forsendur
  • Fjárhagslegar forsendur

Skoða má allar upplýsingar um leyfiskerfi KSÍ í valmyndinni hérna vinstra megin.

Leyfishandbókin

Í leyfishandbókinni er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar um allar forsendur sem þarf að uppfylla, félögunum er bent á að kynna sér bókina vel. 

Leyfisfulltrúi

Hvert félag tilnefnir einn leyfisfulltrúa og sendir upplýsingar um viðkomandi til leyfisstjóra KSÍ.

Trúnaður

KSÍ er bundið trúnaði gagnvart leyfisumsækjendum og er ekki heimilt að gefa upp neinar upplýsingar úr leyfisgögnum leyfisumsækjenda, skv. trúnaðaryfirlýsingu þar um.  Allir aðilar sem koma að leyfiskerfinu fyrir hönd KSÍ hafa undirritað slíka trúnaðaryfirlýsingu.

Lykildagsetningar

Skil á gögnum, öðrum en fjárhagslegum, er eigi síðar en 15. janúar.  Fjárhagslegum gögnum skal skilað eigi síðar en 20. febrúar. 

Leyfisvefurinn á ksi.is

Hér á leyfisvef KSÍ má finna má allar helstu upplýsingar um leyfiskerfið, eyðublöð og gátlista, handbókina sjálfa, o.s.frv.