• fös. 22. feb. 2008
  • Lög og reglugerðir

Stjórn KSÍ samþykkir breytingu á reglugerð

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum þann 21. febrúar 2008 breytingu á reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga.

Gerð var breyting til samræmis við reglugerð FIFA um félagaskipti.  Breytingin er á þann veg að nú er miðað við að leikmaður má aðeins vera skráður í 3 félög á keppnistímabili (var áður á tímabilinu 1. júlí til 30. júní) og má aðeins leika með tveimur félögum á keppnistímabili.  Undantekning frá þessu er ef leikmaður fer á milli knattspyrnusambanda með keppnistímabil sem skarast.  Breytingin er hér að neðan skáletruð og yfirstrikað er það sem áður var í grein 10:  

10.1.1.  Leikmaður getur mest verið skráður í þrjú félög milli 1. júlí og 30. júní árið eftir á keppnistímabilinu. Á því tímabili er honum aðeins heimilt að taka þátt í opinberum knattspyrnuleikjum með tveimur félögum sbr. þó ákvæði þessarar greinar og ákvæði um tímabundin félagaskipti í 16. grein.  Undanþága skal veitt frá þessu þegar leikmaður skiptir um félag á milli landa, og keppnistímabil þeirra skarast þannig að í öðru landinu er tímabilið vor/haust en í hinu haust/vor.  Þegar slíkt á við er leikmanni heimilt að leika í opinberum knattspyrnuleikjum með þremur félagsliðum á keppnistímabilinu svo fremi sem öðrum skuldbindingum sé fullnægt.

10.1.5. Leikmanni sem hefur skipt um félag á tímabilinu 15. – 31. júlí innanlands skal ávallt heimilt að hafa félagaskipti á næsta félagaskiptatímabili þannig að hann geti hafið nýtt keppnistímabil með nýju félagi.

Breytingin þýðir í stuttu máli að leikmaður sem t.d. hefur leikið með tveimur félögum erlendis þar sem keppnistímabilið er haust/vor getur skipt yfir í íslenskt félagslið og leikið með því félagi frá upphafi keppnistímabils.  Sama gildir um leikmann sem leikur með tveimur íslenskum félagsliðum á keppnistímabilinu, hann getur skipt yfir í þriðja félag eftir keppnistímabil hér ef hann fer í félag þar sem keppnistímabil er haust/vor.

Breytingin tekur gildi nú þegar.