• mið. 19. ágú. 2009
  • Leyfiskerfi

Tvöföld úttekt UEFA á leyfiskerfinu framundan

UEFA
uefa_merki

Það verður nóg að gera hjá leyfisstjórn í september þar sem framkvæmdar verða tvær úttektir á leyfiskerfi KSÍ og gögnum þeirra félaga sem undirgangast kerfið.  Báðar skoðanirnar fara fram í sömu vikunni, en eru þó algerlega aðskildar og ólíkir þættir skoðaðir.

Dagana 16. og 17. september kemur hingað fulltrúi SGS, sem er alþjóðlegt matsfyrirtæki sem UEFA hefur ráðið til að gera gæðaúttekt á leyfiskerfi í öllum aðildarlöndum sambandsins (UEFA Licensing Audit).  Fulltrúi SGS mun skoða vel alla uppbyggingu leyfiskerfis KSÍ, verkferla, vinnulag og fleira sem snýr að stjórnun leyfiskerfisins.  Þessi úttekt SGS er árviss viðburður og á síðasta ári var engin athugasemd gerð við uppbyggingu leyfiskerfis KSÍ.

Í sömu viku, dagana 16. til 18. september verður einnig gerð önnur úttekt.  Í því tilfelli er um að ræða afar ítarlega úttekt sem snýr að mestu leyti að gögnum þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfi KSÍ (UEFA Compliance Audit).  Félög sem leika í UEFA mótum á árinu eru grandskoðuð.  Hingað til lands kemur einn starfsmaður frá UEFA og honum til aðstoðar verða tveir starfsmenn PwC á Íslandi.  Þessi seinni úttekt er framkvæmd hjá nokkrum knattspyrnusamböndum á ári hverju og er dregið um það í höfuðstöðvum UEFA hvaða knattspyrnusambönd eru heimsótt hverju sinni.