• fös. 16. okt. 2009
  • Leyfiskerfi

Fjárhagsleg háttvísi

UEFA
uefa_merki

Ómar Smárason leyfisstjóri KSÍ og Lúðvík Georgsson formaður leyfisráðs sátu í vikunni ráðstefnu UEFA um sérstakt verkefni sem verið er að setja í gang og fjallar um fjárhagslega háttvísi hjá knattspyrnufélögum- Financial Fair Play.  Þetta verkefni er hluti af leyfiskerfi UEFA og var ráðstefnan, sem haldin var í Genf í Sviss, sótt af fulltrúum allra aðildarþjóða sambandsins.

Sett verður á fót sérstakur starfshópur – Club Financial Control Panel – sem mun sjá um framkvæmd þessa verkefnis.  Fulltrúar starfshópsins munu heimsækja 10 knattspyrnusambönd á ári hverju, skoða gögn allra þeirra félaga sem leika í UEFA-mótum, og gefa skýrslu til UEFA ásamt því að  gera tillögur að meðferð mála til aganefndar UEFA, þar sem við á.

Sérstaklega verður tekið á því að félögin geti ekki verið í vanskilum við önnur félög vegna félagaskipta, eða við leikmenn og þjálfara vegna vangoldinna launa.  Þá verður lögð mikil áhersla á að rekstur félaga verði innan skynsamlegra marka og að félögin geti ekki eytt um efni fram ár eftir ár.

Þó svo að hér eigi að vera ein nálgun gagnvart öllum liðum í Evrópu, þá liggur samt fyrir að nálgunin gagnvart liðum frá Íslandi verður ekki sú sama og gagnvart liðum frá stærri löndunum.  Liðum verður skipt í þrjá flokka – stór, miðlungs og lítil.  Litlu liðin (þ.á.m. Ísland) fá sérstaka meðferð.  Þessu verkefni er fyrst og fremst beint að stóru þjóðunum og miðlungs.