• þri. 12. jan. 2010
  • Leyfiskerfi

Leyfiskerfi í aðildarlöndum UEFA

UEFA
uefa_merki

Leyfiskerfi í aðildarlöndum UEFA eru öll byggð upp á sama hátt og fylgja sömu reglum í grunninn.  Í sumum löndum hefur verið starfrækt leyfiskerfi til fjölda ára, t.d. í Þýskalandi, Belgíu og Hollandi, en flest lönd í Evrópu tóku upp leyfiskerfi þegar UEFA setti sitt leyfiskerfi á fót árið 2003.  Ákveðin blæbrigði eru þó milli landa hvað kröfurnar varðar.

Hér á landi nær leyfiskerfið til tveggja efstu deilda karla og aðeins er um eitt kerfi að ræða, sem gildir þá bæði fyrir deildarkeppni innanlands og Evrópukeppni. Þær kröfur sem UEFA gerir og þær kröfur sem KSÍ gerir eru því sameinaðar í einni reglugerð og þess gætt að lágmarkskröfum UEFA sé fylgt.  Þessa sömu uppbyggingu er að finna víða, t.d. í Þýskalandi, Sviss, Danmörku, Austurríki, Póllandi og Litháen.

Í Svíþjóð og í Noregi nær leyfiskerfið til efstu tveggja deilda, líkt og á Íslandi.  Í þessum löndum, eins og reyndar víðar, t.d. í Hollandi, Belgíu, Skotlandi og Rússlandi, vinna félögin og knattspyrnusamböndin með tvö leyfiskerfi, annars vegar leyfiskerfi viðkomandi knattspyrnusambands - sem nær til tveggja efstu deildanna - og hins vegar leyfiskerfi UEFA - sem nær til þeirra félaga sem leika í Evrópukeppni.  Félögin í þessum löndum sem komast í Evrópukeppni þurfa því að undirgangast tvöfalt leyfiskerfi.  Kröfurnar í leyfiskerfi viðkomandi lands og kröfur UEFA eru svipaðar - kerfi UEFA gengur þó lengra á sumum sviðum en skemmra á öðrum.  Í Noregi eru t.d. mun strangari fjárhagskröfur í leyfiskerfi norska knattspyrnusambandsins en í leyfiskerfi UEFA, en kröfur um menntun þjálfara ganga ekki jafn langt og UEFA-leyfiskerfið.

Á Englandi, Spáni, Ítalíu, í Frakklandi, Tyrklandi og Kasakstan, svo eitthvað sé nefnt, er þetta með öðrum hætti.  Þar er ekkert leyfiskerfi innanlands, en félögin sem leika í Evrópumótum þurfa að undirgangast leyfiskerfi UEFA ætli þau sér að leika í mótum á vegum UEFA.  Þau ensku lið sem leika í Meistaradeild UEFA og Evrópudeild UEFA undirgangast því leyfiskerfi UEFA, en önnur ensk félög undirgangast ekki leyfiskerfi, þó svo að þar í landi setji t.d. Enska úrvalsdeildin ákveðnar reglur fyrir þau lið sem leika í þeirri deild.  Félag landsliðsfyrirliðans, Hermanns Hreiðarssonar, hefur t.a.m. verið í fréttum að undanförnu vegna fjárhagsvandræða.  Þau viðurlög sem félagið getur þurft að sæta vegna þeirra fjárhagsvandræða sem það er komið í eru ákveðin af ensku úrvalsdeildinni, en mál Portsmouth kemur ekki inn á borð leyfisstjórnarinnar þar í landi, þar sem félagið leikur ekki í Evrópukeppni.

Uppbygging leyfiskerfa í aðildarlöndum UEFA er því ólík milli landa, en grunnurinn er sá sami.  Markmiðin eru alls staðar þau sömu – styðja við félögin og vinna að síauknum gæðum á öllum sviðum knattspyrnunnar.