• mið. 31. mar. 2010
  • Leyfiskerfi

Ánægjukönnun á meðal leyfisumsækjenda 2010

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Að loknu leyfisferlinu á ári hverju fer fram svokallað árlegt endurmat, að kröfu UEFA, þar sem farið er yfir alla þætti kerfisins og skoðað hvað vel hefur gengið og hvað mætti betur fara.

Einn mikilvægur þáttur í þessu endurmati er að óska eftir upplýsingum frá leyfisumsækjendum um þessi atriði.  Hvað fannst fulltrúum félaganna?  Hvað var vel gert og hvað mætti betur fara?

Svör bárust frá 19 félögum af þeim 24 sem undirgengust leyfiskerfið að þessu sinni (öll félög í efstu deild karla og 1. deild karla undirgangast kerfið) og hér að neðan er stiklað á stóru um helstu atriðin sem fram komu.

  • Almenn ánægja er með þá þjónustu og þann stuðning sem leyfisstjórn KSÍ veitir leyfisumsækjendum.
  • Fulltrúum félaganna finnst þetta vera gott tæki til að hjálpa félögunum við starfið, gefur ákveðnar línur sem gott er að vinna eftir.  Kerfið er strangt og erfitt, en skilar árangri og heldur félögunum á tánum.
  • Eitt félag óskaði eftir nákvæmari lýsingu í gátlista á því hvaða gögn þyrfti að leggja fram til að uppfylla ákveðnar kröfur.
  • Eitt félag hefði viljað sjá mati á mannvirkjaþáttum lokið fyrr, þannig að ekki hefði þurft að fresta ákvarðanatöku vegna nánari skoðunar á mannvirkjaþáttum.
  • Einu félagi fannst fjárhagsformin sem fylla þarf út svolítið flókin og ekki alveg sambærileg við þá lykla sem notaðir eru í ársreikningum félaganna.
  • Lagt var til af einu félagi að leyfisstjóri myndi heimsækja félögin hvert í sínu lagi eins og hægt er, í stað þess að halda einn undirbúningsfund með öllum félögum við upphaf leyfisferlis.
  • Tímamörk vegna skila á fjárhagslegum gögnum þótti 9 félögum heldur þröng.

Leyfisstjórn þakkar leyfishöfum kærlega fyrir góða þátttöku í þessari könnun og mun taka allar ábendingar til skoðunar.  Við sumum ábendingum hefur þegar verið brugðist.