• mán. 17. jan. 2011
  • Leyfiskerfi

Sex 1. deildarfélög hafa skilað í dag

Knattspyrna á Íslandi
missing_badges

Sex félög í 1. deild hafa í dag, mánudag, skilað leyfisgögnum sínum, öðrum en fjárhagslegum, vegna umsóknar um þátttökuleyfi keppnistímabilið 2011.  Þrjú félög til viðbótar hafa sett gögn sín í póst og ef póststimpillinn sýnir 17. janúar teljast þau félög hafa skilað innan tímamarka. 

Þau gögn sem skilað er nú fjalla m.a. um knattspyrnulega uppeldisáætlun ungra leikmanna, menntun þjálfara, lagalega uppbyggingu félagsins og mannvirkjaþætti.  Félögin sex sem skiluðu í dag eru Fjölnir, Grótta, Haukar, HK, Leiknir R og Þróttur R, en þau félög sem hafa póstað gögn sín í dag skv. upplýsingum leyfisstjórnar eru BÍ/Bolungarvík, ÍA og Víkingur Ó.  Staðfest verður með frétt hér á vefnum þegar gögnin frá þessum félögum berast.

Áður höfðu borist gögn frá hinum 6 félögunum í 1. deild, þannig að þegar póstur berst frá þessum þremur hér að ofan hafa öll félögin skilað. 

Fjárhagsgögnin líka í póstinum

Samkvæmt upplýsingum frá Víkingum í Ólafsvík inniheldur póstsending þeirra ekki eingöngu gögn um knattspyrnulegar forsendur, mannvirkjaforsendur, starfsfólks og stjórnunarlegar forendur og lagalegar forsendur, heldur eru Ólsarar einnig að skila fjárhagslegum gögnum, þ.m.t. ársreikningi með áritun endurskoðanda ásamt öðrum viðeigandi gögnum og staðfestingum.  Aldrei fyrr hefur það gerst að leyfisumsækjandi skili fjárhagsgögnum í janúar, enda er skiladagur þeirra gagna að öllu jöfnu 20. febrúar, samkvæmt leyfisreglugerð.