• fim. 26. apr. 2012
  • Leyfiskerfi

Könnun á meðal leyfisumsækjenda 2012

Ldv_2010_Atburdir-214
Ldv_2010_Atburdir-214

Að loknu leyfisferlinu á ári hverju fer fram svokallað árlegt endurmat, að kröfu UEFA, þar sem farið er yfir alla þætti kerfisins og skoðað hvað vel hefur gengið og hvað mætti betur fara.

Einn mikilvægur þáttur í þessu endurmati er að óska eftir upplýsingum frá leyfisumsækjendum um þessi atriði. Hvað fannst fulltrúum félaganna? Hvað var vel gert og hvað mætti betur fara?

Svör bárust frá 16 félögum af þeim 24 sem undirgengust leyfiskerfið að þessu sinni (öll félög í efstu deild karla og 1. deild karla undirgangast kerfið), og hér að neðan er stiklað á stóru um helstu atriðin sem fram komu.

  • Almennt fannst fulltrúum félaganna skipulag af hálfu KSÍ vera gott, einfalt aðgengi að öllum þeim gögnum sem félögin geta notað við sínar leyfisumsóknir og þjónusta leyfisstjórnar góð.
  • Einu félagi fannst menn ofmeta vinnuna við undirbúning leyfisgagna, taldi þetta ekki vera eins mikla vinnu og búist hafði verið við.  Með góðu skipulagi og verkaskiptingu gengi vinnan hratt fyrir sig.
  • Nokkur félög nefndu kostnað við kerfið (endurskoðun og fleira) og töldu rétt að skoða hvort ekki mætti hækka styrkinn sem KSÍ hefur veitt félögunum vegna vinnu við leyfiskerfið.
  • Að venju var kallað eftir því að áfram væri reynt að einfalda vinnu við kerfið, minnka pappírsflóð og færa framlagningu gagna meira á vefinn, þannig að hægt væri að vísa í vefsíður félaganna (eða aðrar vefsíður eftir því sem við á) í stað þess að leggja fram útprentað pappírsgagn þegar sýnt er fram á að tilteknar greinar séu uppfylltar.
  • Eitt félag nefndi þröngan ramma vegna skila á fjárhagsgögnum, taldi að seinka þyrfti skiladagsetningunni 20. febrúar, færa hana aftar á dagatalið.
  • Þá nefndi eitt félag hvort ekki væri hægt að vinna samanburðartölur upp úr fjárhagsgögnum félaganna, n.k. skýrslu um stöðu félaga til að menn gætu áttað sig betur á því hvar þeirra félag stendur í samanburði við önnur félög.  Ekki væri þá átt við tengingu upplýsinga við einstök félög, heldur almennar tölur sem hægt væri að nota til samanburðar.

Leyfisstjórn þakkar leyfishöfum kærlega fyrir góða þátttöku í þessari könnun og mun taka allar ábendingar til skoðunar. Við sumum ábendingum hefur þegar verið brugðist.