• mið. 10. okt. 2012
  • Landslið

Frá blaðamannafundi fyrir leik Albaníu og Íslands

Aron Einar og Lars á blaðamannafundi í Tirana
IMG-20121010-01036

Á blaðamannafundi sem haldinn var á hóteli íslenska liðsins í Tirana í Albaníu sátu þjálfarinn Lars Lagerbäck og fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson fyrir svörum albanskra blaðamanna.

Þjálfarinn sænski var fyrst spurður við hverju hann byggist af landsliði Albaníu.

Albanía er með gott lið, og við sýnum Albönum virðingu sem knattspyrnuþjóð. Þeir eru með líkamlega sterka leikmenn, og liðið hefur verið óheppið að ná ekki betri árangri í gegnum tíðina, því hér hafa margar stórar knattspyrnuþjóðir lent í vandræðum. Albanirnir eru vel skipulagðir undir stjórn nýs þjálfara og leika agaðan og grimman varnarleik sem er stýrt af reynslumiklum leikmönnum eins og Lorik Cana, sem er leiðtogi liðsins og hefur flestar sóknirnar hjá þeim. Þó hann leiki jafnan sem miðvörður með landsliðinu er hann afar mikilvægur í spili þeirra. Leikmenn héðan eru líka þekktir fyrir að vera duglegir og grimmir í návígjum. Svo spila áhorfendur auðvitað inn í, þeir eru mjög öflugir hérna, afar ástríðufullir og styðja sitt lið af miklum krafti".

Aron Einar tók undir orð þjálfarans. „Við vitum af hverju við erum hér og vitum hvað við viljum gera. Þetta verður örugglega jafn leikur, mikið um líkamleg átök og hörkutæklingar".

Lars hefur tvisvar sinnum áður komið til Albaníu, sem landsliðsþjálfari Svíþjóðar, og var minntur á það af albönskum blaðamönnum að hann hefði ekki enn unnið sigur hér, því fyrst töpuðu Svíar undir hans stjórn í Tirana og gerðu svo jafntefli. „Fyrst tap og svo jafntefli, þetta er allt á uppleið, vinnum við þá ekki bara á föstudaginn?" Sagði Svíinn og glotti við tönn.

Það er í raun ekki mikill munur á því að þjálfa Svíþjóð og Ísland" sagði Lars aðspurður. „Það eina sem er öðruvísi er að sænska knattspyrnusambandið er stærra en það íslenska og hefur því úr meiri fjármunum að ráða. En það er ekkert vandamál, þetta hefur allt gengið vel hjá okkur og ég hef ekki undan neinu að kvarta í þeim efnum. Stuðningurinn er góður."

Á Ísland möguleika í riðlinum?

Við eigum möguleika á móti öllum liðum og viljum keppa í efri hluta riðilsins, en til þess þurfum við að sýna stöðugleika frá einum leik til annars. Þessi riðill gæti orðið mjög jafn og ég tel að þetta sé svona riðill þar sem allir geta unnið alla. Við erum með ungt lið, unga leikmenn sem hafa nú þegar öðlast mikla reynslu og framtíðin er björt, eftir 2-3 ár verðum við vonandi með mjög sterkt lið."

Er Aron Einar sammála? „Liðið er að vaxa með hverjum leik, þetta er allt á réttri leið hjá okkur og við erum alltaf að læra, og viljum stöðugt vera að bæta okkur. Við viljum ná eins mörgum stigum og við getum í þessum riðli. Sviss virðist vera með sterkasta liðið, en annars held ég að allir geti unnið alla" sagði fyrirliði Íslands og tók þar með undir fyrri orð þjálfarans.

Sem ungur fyrirliði svona ungs liðs, þá hlýturðu að vonast til að komast í lokakeppni stórmóts á komandi árum. Telurðu Ísland eiga möguleika á því?

Það er draumur okkar allra og allra Íslendinga, en það er langur vegur að þeim draumi og það þarf margt að gerast áður en hann getur orðið að veruleika. Það eru til dæmis nokkrir leikir eftir í þessum riðli." Sagði Aron og voru það lokaorðin á þessum blaðamannafundi, áður en liðið hélt á æfingu á Qemal Stafa leikvanginum, sem er í göngufæri frá hóteli liðsins.

Frá blaðamannafundi í Tirana