• mán. 01. júl. 2013
  • Landslið

Opna NM U17 kvenna:  Fyrsta leikdegi lokið

Ísland og Þýskaland á NM U17 kvenna 2013
nmu17kvenna2013-isl-ger

Fyrsta leikdegi á Opna Norðurlandamóti U17 landsliða kvenna lauk með markaveislu á Hertz-vellinum í Breiðholti, þar sem leiki í B-riðli fóru fram.  Ísland lék í grindavík gegn Þýskalandi, þar sem þær þýsku höfðu betur.  Finnar unnu Hollendinga í Grindavík í opnunarleiknum.

Næsta umferð fer fram á þriðjudag, en þá mætir Ísland liði Hollands á Nettóvellinum í Reykjanesbæ kl. 16:00.  Allt um mótið á Facebook-síðu þess.

Um leikina á fyrsta leikdegi

A-riðill (staðan)

Finnland - Holland: 2-1

Bæði lið léku afar varfærnislega og lítið var um marktækifæri lengst af. Allt virtist stefna í markalaust jafntefli þegar leikmaður Finna virtist sloppinn í gegnum hollensku vörnina þegar Maureen Sanders braut á henni rétt utan vítateigs og hlaut áminningu fyrir. Finnska liðið gaf það sterklega til kynna að þeim fannst annar litur eiga að vera á spjaldinu og mátti segja að Hollendingarnir hafi sloppið með skrekkinn. Finnarnir gerðu sér hins vegar lítið fyrir og skoruðu glæsilegt mark úr vel útfærðri aukaspyrnunni. Boltanum var rennt til hliðar og Heidi Kollanen skaut hnitmiðuðu skoti neðst í markhornið. Þetta gerðist þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum. Hollendingarnir voru þó ekki lengi að ná sér og um fimm mínútum síðar jafnaði Sabrine Ellouzi metin. Allt útlit var fyrir að liðin myndu deila stigunum en Finnarnir tryggðu sér öll stigin þrjú með sigurmarki í blálokin. Þar var að verki Katriina Kuoksa og finnska liðið fagnaði sigri í þessum opnunarleik mótsins.

Ísland – Þýskaland 0-2

Ísland mætti firnasterku liði Þjóðverja á Grindavíkurvelli í 1. umferð A-riðils. Eitt mark Þjóðverja í hvorum hálfleik skildi liðin að og tveggja marka þýskur sigur staðreynd. Þjóðverjar voru mun meira með boltann lengi framan af, án þess þó að skapa sér marktækifæri. Íslenska liðinu óx ásmegin og með auknu sjálfstrausti náðið liðið að spila vel saman upp völlinn og skapa usla upp við þýska markið. Það var því þungt högg þegar Þjóðverjar komust yfir rétt við lok fyrri hálfleiks, þegar löng aukaspyrna utan af velli rataði á kollinn á Jasmin Sehan, sem skallaði knöttinn í netið. Svipað var uppi á teningnum í seinni hálfleik og þýska liðið stjórnaði leiknum. Seinna markið kom á 55. mínútu og þar var að verki Saskia Maier. Þrátt fyrir góða baráttu íslenska liðsins tókst því ekki að svara fyrir sig og þýska liðið hélt frá Grindavík með stigin þrjú. Þrátt fyrir ósigurinn var frammistaða íslenska liðsins með miklum ágætum og stelpurnar okkar sýndu að þær geta svo sannarlega spjarað sig gegn sterkum andstæðingum. Það var margt afar jákvætt í leik íslenska liðsins og spennandi að sjá hvernig þeim gengur í framhaldinu.

B-riðill (staðan)

Danmörk - England: 4-3

Það var boðið upp á sannkallaða markaveislu og dramatík í lokin þegar Danmörk og England mættust á Hertz-vellinum í Breiðholti. Alls litu sjö mörk dagsins ljós og það voru Danir sem stóðu uppi sem sigurvegarar að lokum. Danska liðið lék betur framan af og leiddi þegar flautað var til hálfleiks með mörkum frá Nicoline Sörensen og Signe Schioldan. Englendingar hristu af sér slenið eftir hlé og voru búnir að jafna metin áður en 10 mínútur liðu af seinni hálfleik – Ashleigh Plumptre með bæði mörkin. Nicoline Sörensen bætti við öðru marki fyrir Dani áður en Jemma Purfield jafnaði metin að nýju fimm mínútum fyrir leikslok. Á lokasekúndum leiksins kom svo sigurmarkið, stórglæsilegur þrumufleygur af löngu færi frá Emmu Sörensen, og danskur sigur í höfn.

Noregur - Svíþjóð  2-2

Það er óhætt að segja að leikir dagsins á Hertz-vellinum í Breiðholti hafi verið fjörugir og mikið skorað.  Í fyrri leiknum voru skoruð sjö mörk og Norðmenn og Svíar bættu við tveimur mörkum hvort lið, í hörkuspennandi leik.  Svo virðist sem liðin fjögur í B-riðli séu afar jöfn að styrk og mikil barátt er framundan um efsta sætið.  Rebecka Blomqvist í liði Svía skoraði eina mark fyrri hálfleiksins, en Norðmenn svöruðu með tveimur mörkum frá Vilde Fjelldal.  Fyrra merkið koma strax á 3. mínútu síðari hálfleiks og það seinna á 68. mínútu.  Jöfnunarmark sænska liðsins kom þegar aðeins nokkrar mínútur voru eftir af leiknum og þar var að verki Anna Anvegård.