• fös. 15. nóv. 2013
  • Landslið

Markalaust jafntefli gegn Króatíu

HM 2014 í Brasilíu
fifa-wc-brazil-2014

Jafntefli varð í fyrri umspilsleik Íslands og Króatíu um laust sæti á HM 2014 en leikið var á Laugardalsvelli.  Ekkert mark var skorað í leiknum en íslenska liðið lék manni færra síðustu 40 mínútur leiksins.

Byrjun leiksins var gríðarlega fjörug en bæði lið fengu færi á fyrstu tveimur mínútum leiksins.  Ari Freyr Skúlason hreinsaði á marklínu eftir skot Króata og hinu megin komst Alfreð Finnbogason í frábært færi en varnarmenn gestanna komust fyrir og björguðu í horn.

Eftir þessu fjörugu byrjun róaðist leikurinn en baráttan var gríðarlega hjá báðum liðum.  Kolbeinn Sigþórsson meiddist undir lok fyrri hálfleiksins og kom Eiður Smári Guðjohnesen í hans stað í síðari hálfleik.  Róður okkar manna þyngdist til muna eftir aðeins fimm mínútna leik í síðari hálfleik þegar Ólafur Ingi Skúlason fékk rautt spjald.  Einum færri í 40 mínútur vörðust íslensku strákarnir hetjulega, ákaft hvattir af troðfullum Laugardalsvelli.  Króatar sóttu mikið það sem eftir liðfi leiks en varnarleikur alls íslenska liðsins var frábær og fyrir aftan stóð Hannes Þór Halldórsson mjög öruggur í markinu.

Markalaust jafntefli, úrslit sem gera síðari leikinn í Króatíu gríðarlega spennandi.  Það er hálfleikur í þessari viðureign um laust sæti í Brasilíu.  Allt galopið, afrek hjá okkar strákum að halda hreinu í kvöld á miðað við hvernig leikurinn spilaðist og okkar lið hefur gengið vel til þessa að skora á útivelli.

Það er ekki hægt að skilja við þennan leik án þess minnast á þátt áhorfenda sem voru einfaldlega stórkostlegir á Laugardalsvelli í kvöld.  Tólfan gaf tóninn og allir aðrir fylgdu með, einfaldlega frábær stemning sem lengi mun lifa í minningunni.

Seinni leikur Króatíu og Íslands fer fram í Zagreb næstkomandi þriðjudag, þar verður allt undir en það er allt hægt.