• mán. 13. jan. 2014
  • Fræðsla

Samstarfssamningur KSÍ og Special Olympics á Íslandi undirritaður

Special-Ol-samningur undirritun

Í dag var undirritaður samstarfssamningur Knattspyrnusambands Íslands og Íþróttasambands fatlaðra vegna Special Olympics á Íslandi.

Íþróttasamband fatlaðra er umsjónaraðili starfsemi Special Olympics á Íslandi.  KSÍ hefur verið í samstarfi við Special Olympics á Íslandi vegna ýmissa verkefna m.a. Íslandsleika í knattspyrnu.

Íþróttagreinastjóri Special Olympics í knattspyrnu er starfsmaður KSÍ og hefur verið fulltrúi Íslands á fundum og ráðstefnum erlendis um knattspyrnumál Special Olympics.

KSÍ aðstoðaði við þróun verkefnisins Unified football, þar sem fatlaðir og ófatlaðir keppa saman en verkefnið er alþjóðaverkefni Special Olympics. Þá var einnig samstarfsverkefni sett á fót tengt uppsetningu sparkvalla KSÍ

Með þessum samstarfssamningi hefur samstarfið verið sett í formlegan farveg en aðildarlönd Special Olympics International hafa verið hvött til að koma á fót formlegu samstarfi við knattspyrnusambönd í sínu heimalandi.

Ísland er eitt af fyrstu aðildarlöndum SOI sem staðfesta slíkt samstarf formlega.  KSÍ mun hvetja knattspyrnufélög um land allt til samstarfs á þessu sviði og kynna samstarfið í í tengslum við þjálfaranámskeið barna og unglinga.



 Á myndinni má sjá (frá vinstri) Geir Þorsteinsson (formaður KSÍ), Guðlaugur Gunnarsson (KSÍ), Anna Karólína Vilhjálmsdóttir (ÍF) og  Sveinn Áki Lúðvíksson (formaður ÍF).