• mið. 19. feb. 2014
  • Leyfiskerfi

Skiladagur fjárhagsgagna er fimmtudagurinn 20. febrúar

Ldv_2010_Atburdir-214
Ldv_2010_Atburdir-214

Fimmtudagurinn 20. febrúar er skiladagur fjárhagsgagna í leyfisferlinu fyrir keppnistímabilið 2014.  Þau félög sem undirgangast leyfiskerfið, þ.e. félög í efstu tveimur deildum karla, þurfa þá að skila til leyfisstjórnar ársreikningum sínum og öðrum fylgigögnum.

Meðal þeirra gagna sem skilað er nú eru sem fyrr greinir ársreikningar félaganna, staðfestir af stjórn viðkomandi félags og með viðeigandi áritun endurskoðanda (full áritun í Pepsi-deild og könnunaráritun í 1. deild), auk sundurliðana samkvæmt kröfum leyfiskerfisins.  Auk þess er ýmsum fylgigögnum skilað, s.s. staðfestingum á engum vanskilum vegna félagaskipta, eða vegna greiðslna til leikmanna og þjálfara.

Viðmiðunarreglur um fjárhagsstöðu félaga

Í leyfisferlinu fyrir keppnistímabilið 2014 tóku gildi viðmiðunarreglur um fjárhagsstöðu þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfið.  Annars vegar er um að ræða reglur um eiginfjárstöðu og hins vegar um skuldabyrði.  Segja má að þessar viðmiðunarreglur gjörbreyti í raun þeim fjárhagslegu kröfum sem gerðar eru til þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfið. Reglurnar voru fyrst kynntar fyrir aðildarfélögum KSÍ haustið 2012 og hafa síðan verið kynntar á tveimur fundum með leyfisfulltrúum félaganna (desember 2012 og desember 2013) og tveimur fundum með endurskoðendum félaga (janúar 2013 og janúar 2014).

Jákvæð eiginfjárstaða

Krafa er gerð um jákvæða eiginfjárstöðu.  Grunnreglan er sú að félag sem er með / lendir í neikvæðri eiginfjárstöðu fær tvö ár til að bæta úr því. Aukaaðlögun í byrjun: Leyfisumsækjandi með verulega neikvæða eiginfjárstöðu (meira en 10% af knattspyrnulegum rekstrartekjum) getur fengið tveggja ára auka aðlögun að forsendunni, en þarf að sýna fram á bætta stöðu eftir tvö ár (lækkun um 40%) til að fá það. Gildir til loka leyfisárs 2017.

Hámarksskuldabyrði

Heildarskuldir og skuldbindingar mega ekki vera hærri en 50% af meðaltali af knattspyrnulegum rekstrartekjum yfir 3 undangengin ár.  Grunnreglan er sú að félag sem fer yfir hámarksskuldabyrði fær tvö ár til að bæta úr því.  Aukaaðlögun í byrjun: Leyfisumsækjandi með skuldabyrði sem er meira en 60% í upphafi, getur fengið tveggja ára aukaaðlögun að forsendunni, en þarf a.m.k að halda í horfinu fyrstu tvö árin til að fá það. Gildir til loka leyfisárs 2017.

Leyfisráð fundar í byrjun mars

Leyfisumsóknir félaganna verða teknar fyrir af leyfisráði á tveimur fundum í byrjun mars (10. og 14. mars) og mun ráðið þá úrskurða um veitingu þátttökuleyfa fyrir keppnistímabilið 2014.  Komi til þess að leyfisráð synji umsækjanda um þátttökuleyfi getur viðkomandi félag áfrýjað til leyfisdóms innan 7 daga frá úrskurði leyfisráðs.