• þri. 20. jan. 2015
  • Landslið

A karla - Jafnt gegn Kanada í Orlando

Byrjunarlið Íslands gegn Kanada í Orlando, 19. janúar
Byrjunarlidid-i-Orlando

Íslenska karlalandsliðið gerði jafntefli í kvöld gegn Kanada en þetta var seinni vináttulandsleikur þjóðanna á fjórum dögum og fóru þeir báðir fram í Orlando.  Lokatölur urðu 1 - 1 eftir að Kanada hafði leitt í leikhléi með einu marki en bæði mörk leiksins komu úr vítaspyrnum.

Fyrri hálfleikur var rólegur þar sem Kanadamenn héldu boltanum betur innan síns liðs án þess að skapa sér afgerandi marktækifæri.  Besta færi Íslendinga var þegar Jón Guðni Fjóluson skallaði í þverslána í eftir aukaspyrnu.  Eina mark hálfleiksins kom á 29. mínútu þegar Kanadamenn fengu vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr.

Seinni hálfleikur var töluvert opnari og réð íslenska liðið ferðinni, sérstaklega þegar líða fór á hálfleikinn.  Jöfnunarmarkið kom úr vítaspyrnu eftir að Matthías Vilhjálmsson var felldur innan vítateigs og Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði örugglega úr spyrnunni.  Íslenska liðið sótti mjög undir lokin og fengu Matthías og Elías Már Ómarsson fín færi til að koma Íslendingum yfir en lokatölur urðu engu að síður 1 - 1.

Haukur Heiðar Hauksson og Hörður Árnason léku sína fyrstu A landsleiki í kvöld en alls léku sex leikmenn sína fyrstu landsleiki í þessari ferð.  Tveir þeirra skoruðu einnig sín fyrstu landsliðsmörk, Hólmbert Aron Friðjónsson og Kristinn Steindórsson.  Kristinn hvíldi í dag vegna smávægilegra meiðsla.  Næsta verkefni liðsins verður í undankeppni EM þegar leikið verður gegn Kasakstan ytra, 28. mars.  Í sömu ferð verður svo leikinn vináttulandsleikur gegn Eistlandi, 31. mars.