• fim. 05. mar. 2015
  • Leyfiskerfi

Leyfisráð fundar 10. mars

Nystuka2007-0137
Nystuka2007-0137

Þessa dagana eru þau félög sum undirgangast leyfiskerfi KSÍ á fullu að vinna að endurbótum og uppfærslu á leyfisgögnum sínum, og þá sér í lagi fjárhagslegum gögnum.  Leyfisráð kemur saman þriðjudaginn 10. mars og tekur þá fyrir umsóknir félaga um þátttökuleyfi í Pepsi-deild karla og 1. deild karla 2015.

Flest félögin hafa lokið vinnu við leyfisgögn önnur en fjárhagsleg, þó örfá eigi eftir að fínstilla nokkur atriði.  Mestur þunginn þessa dagana fer í fjárhagsgögnin, sem skilað var seinnipart febrúarmánaðar.  Þau gögn hafa sérfræðingar leyfisstjórnar í fjárhagslegum þáttum nú farið yfir og skilað athugasemdum og tillögum að úrbótum til félaganna þar sem við á.  Þar er m.a. um að ræða ársreikninga með viðeigandi áritunum endurskoðenda og ítarlegum sundurliðunum, ýmsar fjárhagslegar staðfestingar, sem og staðfestingar á engum vanskilum, m.a. við leikmenn og þjálfara.

Tímaramminn í leyfisferlinu er þröngur og iðulega standa félögin frammi fyrir tímapressu á skilum, ekki síst skilum endurbættra gagna eftir yfirferð sérfræðinga leyfisstjórnar.  Möguleikinn á því að skila gögnum með rafrænum hætti hefur létt nokkuð á þessari tímapressu, enda mun fljótlegra og einfaldara vinnulag en þegar gögnum er skilað á pappír.  Félögin og endurskoðendur þeirra hafa tekið þessum möguleika fagnandi og hafa rafræn skil aukist verulega milli ára.  Í leyfisferlinu 2014 skilaði rúmlega helmingur félaga gögnum öðrum en fjárhagslegum rafrænt og þrír fjórðu skiluðu fjárhagsgögnum með rafrænum hætti.  Í leyfisferlinu nú, 2015, skiluðu 23 af 24 félögum öllum gögnum rafrænt.