• mán. 14. okt. 2019
  • A karla
  • Landslið

A karla - 2-0 sigur gegn Andorra

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland vann 2-0 sigur gegn Andorra, en Arnór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörk Íslands.

Ísland var meira með boltann strax frá upphafi leiksins, héldu honum vel á meðan Andorra lágu neðarlega og beyttu skyndisóknum. Fyrsta færi leiksins kom strax á 3. mínútu, en þá varði Josep Gomes vel skalla Kolbeins eftir hornspyrnu Ara Freys Skúlasonar.

Á 11. mínútu var kom að Alfreð Finnbogasyni. Gylfi Þór Sigurðsson tók aukaspyrnu nálægt miðju vallarins, boltinn barst til Alfreðs en skot hans fór yfir markið. Strákarnir höfðu góð tök á leiknum og Andorra náði ekki að skapa sér neitt að ráði.

Á 22. mínútu átti Arnór Sigurðsson skot yfir markið eftir góðan undirbúning Kolbeins. Það var svo á 38. mínútu sem Arnór Sigurðsson opnaði markareikning sinn fyrir íslenska landsliðið. Guðlaugur Victor Pálsson átti góða fyrirgjöf á Kolbein, hann sendi boltann til hliðar á Arnór sem setti boltann af öryggi í netið. Staðan orðin 1-0 fyrir Ísland.

Rétt fyrir lok hálfleiksins fékk Ísland tvö ágætis færi. Fyrst átti Ragnar Sigurðsson skalla framhjá eftir fyrirgjöf Ara Freys, en stuttu síðar var það Alfreð sem var nálægt því að koma boltanum á markið en varnarmaður Andorra komst fyrir skotið.

Strákarnir byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og strax á fyrstu mínútu hans átt Kolbeinn skot að marki, en Gomes varði það í marki Andorra. Tveimur mínútum síðar var aukaspyrna Gylfa varin, frákastið barst til Birkis Bjarnasonar en honum tókst ekki að koma boltanum á markið. 

Næstu fimmtán mínúturnar einkenndust af því að Ísland var meira með boltann, en áttu í vandræðum með að opna vörn Andorra. 

Á 64. mínútu kom Jón Daði Böðvarsson inn á fyrir Alfreð Finnbogason. Tveimur mínútum síðar skoraði Kolbeinn Sigþórsson annað mark Íslands eftir frábæra skyndisókn. Staðan orðin 2-0.

Á næstu fimm mínútum gerði Ísland tvær skiptingar. Emil Hallfreðsson og Sverrir Ingason komu inn á fyrir Birki Bjarnason og Ragnar Sigurðsson. Stuttu síðar fór boltinn í hendi varnarmanns Andorra. Gylfi steig á vítapunktinn, en Gomes varði frábærlega spyrnu hans.

Ísland var með yfirhöndina út leikinn og var nálægt því að bæta við þriðja markinu í uppbótartíma. Aukaspyrna Gylfa endaði þá í stönginni. 2-0 sigur Íslands staðreynd.