• mið. 22. apr. 2020
  • Mótamál
  • COVID-19

Íþróttastarf eftir 4. maí

Á þriðjudag birti heilbrigðisráðherra nýja auglýsingu um "takmörkun á samkomum vegna farsóttar", sem tekur gildi 4. maí 2020 kl. 00.00 og gildir til 1. júní 2020 kl. 23.59.  Markmið takmörkunarinnar er sem fyrr að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Takmörkunin og þörf á henni verður endurmetin eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar. Takmörkun á samkomum nær til landsins alls. 

KSÍ hvetur knattspyrnuheyfinguna til að kynna sér gögnin vandlega og halda áfram að fylgja fyrirmælum yfirvalda í einu og öllu.


Fjallað er um skipulagt íþróttastarf í 6. grein auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

6. gr. - Skipulagt íþróttastarf.

  • Æfingar og keppnir skipulagðs íþróttastarfs eru heimilar án áhorfenda með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr.
  • Í skipulögðu íþróttastarfi skulu snertingar vera óheimilar og halda skal 2 metra bili á milli einstak­linga. Notkun á sameiginlegum búnaði, einkum þeim sem snertur er með höndum, skal haldið í lágmarki og ber að sótthreinsa hann á milli notkunar.
  • Óheimilt er að nota búningsklefa, sturtuklefa og aðra inniaðstöðu en íþróttasal og salernis­aðstöðu.
    Við skipulagt íþróttastarf innandyra mega ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman í einu rými, sem skal vera a.m.k. 800 m².
  • Við skipulagt íþróttastarf utandyra mega ekki fleiri en sjö einstaklingar æfa eða leika saman í hópi. Séu fleiri hópar við æfingar á sama svæði skal miða við að hver hópur hafi um 2.000 m² til umráða.
  • Þrátt fyrir ákvæði 3.-5. mgr. eru sundæfingar heimilar fyrir allt að sjö manns í einu, hvort sem er inni eða úti, og notkun búnings- og sturtuaðstöðu eftir því sem þörf krefur.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra varðandi afléttingu samkomutakmarkana er fjallað um íþróttastarf barna annars vegar og fullorðinna hins vegar.

Íþrótta- og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólastigi:

  • Engar fjöldatakmarkanir verða settar á iðkendur.
  • Öll íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, inni og úti, verði leyfð.
  • Skíðasvæði verði opin fyrir æfingar barna og unglinga.
  • Sundlaugar, búnings- og sundaðstaða verði opin fyrir sundæfingar barna og unglinga.
  • Keppni í íþróttum barna á leik- og grunnskólastigi verði heimil án áhorfenda.
  • Hvatt verði til sérstaks hreinlætis og handþvottar.
  • Tveggja metra nándarreglan verði virt eins og hægt er.

Íþróttastarf fullorðinna:

  • Mest verði sjö einstaklingar með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll.
  • Mest verði fjórir einstaklingar með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll.
  • Notkun búningsaðstöðu innanhúss verði óheimil.
  • Hvatt verði til að tveggjametra nándarreglan verði virt.
  • Keppni í íþróttum fullorðinna verði óheimil nema ef hægt sé að uppfylla skilyrði um tveggja metra nándarreglu og að keppni sé án áhorfenda.
  • Sundæfingar fyrir fullorðna verði að hámarki fyrir sjö einstaklinga. Notkun búnings- og sturtuaðstöðu verði leyfð.
  • Áfram verði hvatt til sérstaks hreinlætis, handþvottar og notkunar handspritts.

Nánari upplýsingar:

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar - Af vef Stjórnartíðinda

Minnisblað sóttvarnalæknis varðandi afléttingu takmarkana á samkomum