• fös. 26. mar. 2021
  • Dómaramál
  • Mótamál

Breytingar á knattspyrnulögunum samþykktar

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Á fundi sínum 18. mars samþykkti stjórn KSÍ breytingar á knattspyrnulögunum sem taka gildi við upphaf Mjólkurbikars KSÍ.

Breytingar á einstökum greinum eru eftirfarandi, en öllum ákvæðum sem tengjast VAR er sleppt hér til einföldunar:

1. grein - Leikvöllurinn

Markstangirnar og markslárnar (og bæði mörkin) verða að vera sömu lögunar.

7. grein - Leiktíminn

Ákvæði um viðbótartíma á við um ,,tapaðan" leiktíma.

11. grein - Rangstaða

Bætt er við skilgreiningunni úr 12. greininni um hvað teljist til handleggsins (frá neðri mörkum handakrikans) til að nota við mat á rang- og réttstöðu.

12. grein - Leikbrot og óviðeigandi hegðun - boltinn handleikinn

Ekki skal meta sérhverja snertingu handar/handleggs við boltann sem leikbrot.

Meta skal stöðu handar/handleggs leikmannsins í samhengi við hreyfingu líkama hans í hverju tilfelli fyrir sig.

Óviljandi hendi sóknarmanns sem hrekkur til samherja og skapar þannig marktækifæri er ekki lengur refsiverð.

Noti leikmaður viljandi bragð til þess að komast í kringum lögin við að leika boltanum til markvarðar svo hann geti handleikið hann er nú einnig refsivert við töku markspyrna. Upphafsmaðurinn skal áminntur (gult spjald).

Vítaspyrna getur einungis verið dæmd fyrir brot gegn sérhverjum þeirra sem skráðir eru á leikskýrsluna (leikmönnum eða forráðamönnum).