• sun. 19. sep. 2021
  • Mótamál
  • Lengjudeildin

Önnur og þriðja deild karla kláruðust um helgina

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Síðasta umferð 2. og 3. deildar karla fór fram um helgina, en spenna var á báðum endum.

Þróttur V. hafði tryggt sér titilinn í 2. deild í síðustu umferð, en hörð barátta var á milli KV og Völsungs að fylgja þeim upp í Lengjudeildina. KV var stigi á undan Völsung fyrir lokaumferðina, en liðin höfðu gert 1-1 jafntefli í næstsíðustu umferðinni. KV mætti Þrótti V. á heimavelli og Völsungur fór til Njarðvíkur. Völsungur vann góðan 0-1 sigur í Njarðvík, en það nægði þeim ekki þar sem KV vann flottan 2-0 sigur gegn nýkrýndum sigurvegurum deildarinnar. Það er því KV sem fylgir Þrótti V. upp í Lengjudeildina að ári. Ljóst var hvaða lið myndu falla, en Kári og Fjarðabyggð fá það hlutskipti að leika í 3. deild að ári.

Ákveðin líkindi voru með stöðunni í 3. deild líkt og í deildinni fyrir ofan. Ægir og KFG voru jöfn að stigum í 2.-3. sæti á meðan Höttur/Huginn hafði tryggt sér titilinn í síðustu umferð. Líkt og í 2. deild mætti annað af liðunum sem voru að berjast um annað sætið nýkrýndum meisturum, en Ægir fór austur á firði á meðan KFG fékk Sindra í heimsókn. KFG vann 4-2 sigur og Ægir nældi í stigin þrjú með 2-1 sigri. Liðin voru því áfram jöfn að stigum og með sömu markatölu, en það er Ægir sem fer upp í 2. deild þar sem liðið skoraði fleiri mörk í deildinni. Spennan var ekki síðri á botni deildarinnar. Fyrir lokaumferðina var Einherji í 10. sæti með 19 stig, Tindastóll í því ellefta með 18 stig og ÍH á botninum með 17 stig. Einherji gerði markalaust jafntefli gegn Víði, Tindastóll tapaði 3-4 gegn KFS í Vestmannaeyjum og ÍH vann 2-1 sigur í Árbæ gegn Elliða og tryggði með því áframhaldandi veru sína í 3. deild.

Ljóst er hvaða lið fara upp úr Lengjudeild karla og falla niður í 2. deild. Fram fór ósigrað í gegnum tímabilið og lyfti titlinum um helgina á heimavelli. ÍBV fylgir Fram svo upp í Pepsi Max deild karla. Það verða svo Þróttur R. og Víkingur Ó. sem leika í 2. deild næsta sumar. Tveir leikir eru enn eftir í deildinni. Grótta og ÍBV mætast á miðvikudag og Vestri og Kórdrengir mætast á laugardag.