• mið. 29. jún. 2022
  • Landslið
  • A kvenna
  • EM 2022

Góður sigur Íslands gegn Póllandi

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir skoruðu mörk Íslands í 3-1 sigri gegn Póllandi.

Ísland byrjaði leikinn vel og strax á 4. mínútu átti Sveindís Jane marktilraun sem var bjargað á línu. Nokkrum mínútum síðar átti Dagný Brynjarsdóttir skallaði sem fór yfir markið. Pólland fékk fljótlega eftir það sitt fyrsta færi, en Glódís Perla Viggósdóttir komst fyrir skot Zawistowska. Pólska liðið komst betur og betur inn í leikinn eftir þetta og voru nálægt því að skora fyrsta mark leiksins um miðjan fyrri hálfleik, en Ísland náði að koma boltanum frá marki sínu.

Það var svo í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem Pólland skoraði fyrsta mark leiksins og var þar Ewa Pajor að verki eftir góða skyndisókn þeirra. Póllandi leiddi því leikinn þegar flautað var til hálfleiks.

Ísland hóf síðari hálfleikinn af krafti og var búið að jafna metin eftir aðeins sjö mínútna leik. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir vann þá boltann hátt á vellinum, sendi boltann yfir til Berglindar Bjargar sem setti hann í netið. Staðan því orðin jöfn, 1-1. Liðið var ekki hætt því aðeins mínútu síðar átti Dagný skot sem fór framhjá markinu og strax eftir það skoraði Sveindís Jane annað mark Íslands í leiknum með frábæru skoti úr teignum. Ísland búið að snúa leiknum við strax í upphafi síðari hálfleiks.

Íslenska liðið hélt áfram að stjórna leiknum og Berglind Björg var nálægt því að bæta við öðru marki sínu þegar skot hennar fór í stöngina. Agla María skoraði svo þriðja mark Íslands þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og kom Íslandi í 3-1. 

Flottur sigur hjá Íslandi staðreynd í lokaleik liðsins fyrir EM 2022. Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik liðsins á mótinu sunnudaginn 10. júlí og hefst leikurinn kl. 16:00. Allir leikir liðsins á EM verða í beinni útsendingu á RÚV.