• fim. 14. júl. 2022
  • Landslið
  • A kvenna
  • EM 2022

Annað 1-1 jafntefli í hörkuleik

A landslið kvenna mætti Ítalíu í dag í öðrum leik sínum í úrslitakeppni EM og skildu liðin jöfn.  Niðurstaðan var sú að hvort lið um sig skoraði eitt mark og er íslenska liðið því búið að gera 1-1 jafntefli í tveimur fyrstu leikjum sínum í keppninni.  Leikurinn fór fram í Manchester að viðstöddum fjölmörgum íslenskum stuðningsmönnum sem bjuggu til magnaða stemmningu. 

Leikurinn byrjaði vel fyrir Ísland þegar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði með skoti úr vítateignum eftir langt innkast frá Sveindísi Jane Jónsdóttur á þriðju mínútu.  Eftir það skiptust liðin á að sækja fram að hléi en þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiks.  Ítalir voru sterkari aðilinn í seinni hálfleik og náðu að jafna metin eftir rúmlega klukkutíma leik.  Bæði lið fengu tækifæri til að skora fleiri mörk, en það tókst ekki og því er Ísland sem stendur með tvö stig í riðlinum úr tveimur leikjum.  Frakkar eru með 6 stig og eru öruggir í efsta sæti.  Ítalía og Belgía eru bæði með eitt stig.

Í síðustu umferð mætast annars vegar Ísland og Frakkland í Rotherham og hins vegar Ítalía og Belgía í Manchester og fara báðir leikirnir fram á mánudag kl. 19:00 að íslenskum tíma.

Allt um EM 2022