• fim. 05. okt. 2023
  • Mótamál
  • Besta deildin

Bestu deildirnar klárast um helgina

Um helgina lýkur keppni í Bestu deildum karla og kvenna. Keppni í neðri hluta kvenna lauk 16. september þegar Selfoss og ÍBV féllu.

Á föstudag verður lokaumferðin í efri hluta Bestu deildar kvenna leikin. Klukkan 15:45 tekur FH á móti Þór/KA. FH mun enda mótið í 6. sæti en Þór/KA, sem situr í 5. sæti, getur jafnað Þrótt að stigum en er með lakari markatölu. Klukkan 19:15 fara hinir tveir leikirnir fram. Íslandsmeistarar Vals taka á móti Breiðablik á meðan Stjarnan tekur á móti Þrótti. Breiðablik er sem stendur í 2. sæti með 40 stig og með jafntefli tryggja þær 2. sætið og þar með Evrópusæti. Stjarnan er sem stendur í 3. sæti með 38 stig. Með sigri á Þrótti enda þær með 41 stig sem getur tryggt þeim 2. sætið ef Valur vinnur Breiðablik. Ef Þróttur vinnur sigur á Stjörnunni komast þær upp í 3. sætið á markatölu. 

Besta deild kvenna - Efri hluti

Leikirnir þrír í neðri hluta Bestu deildar karla fara allir fram á laugardaginn klukkan 14:00. Keflavík er fallið og KA hefur tryggt sæti sitt í Bestu deildinni að ári.  Fylkir tekur á móti Fram, ÍBV tekur á móti Keflavík og KA tekur á móti HK. Fram, HK, Fylkir og ÍBV eiga öll tölfræðilegan möguleika á að falla. 

Besta deild karla - Neðri hluti

Í efri hluta Bestu deildar karla fara tveir leikir fram á laugardag klukkan 14:00 og einn á sunnudag klukkan 14:00. Víkingur er búinn að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn og Valur 2. sætið en þessi lið mætast á Víkingsvelli á laugardaginn. Stjarnan og Breiðablik sitja í 3. og 4. sæti deildarinnar og mætast þau á Kópavogsvelli á sunnudaginn. Vinni Breiðablik sigur enda þeir í 3. sæti, með einu stigi meira en Stjarnan en bæði lið hafa tryggt sér Evrópusæti. FH og KR eru bæði með 37 stig og mætast þau í Kaplakrika á laugardaginn.

Besta deild karla - Efri hluti