• fös. 10. jún. 2005
  • Fræðsla

Menntun knattspyrnuþjálfara á Íslandi sumarið 2004

Kristinn V. Jóhannsson, Eyþór Guðnason og Óskar Atli Rúnarsson, nemar í íþróttafræðum við Kennaraháskóla Íslands, hafa nýlega lokið við B.S. ritgerð sína um menntun allra knattspyrnuþjálfara á Íslandi sumarið 2004.  Þeir þremenningar unnu þetta verkefni í samstarfi við KSÍ og er ritgerðin aðgengileg á skrifstofu KSÍ fyrir þá sem hafa áhuga. 

Margar áhugaverðar niðurstöður komu fram í þessari rannsókn á menntun knattspyrnuþjálfara. 

Alls voru 328 þjálfarar starfandi sumarið 2004, 173 þeirra voru karlmenn (83%) og 55 voru konur (17%). 

Aðrar athyglisverðar niðurstöður eru eftirfarandi: 

  • 78% allra starfandi knattspyrnuþjálfara sumarið 2004 höfðu lokið a.m.k. einu þjálfaranámskeiði hjá KSÍ eða sambærilegu námi annars staðar frá.
  • 36.4% allra starfandi þjálfara keppnistímabilið 2004 hafa í dag UEFA B gráðu eða meiri menntun en það.  UEFA B gráða er alþjóðleg þjálfaragráða sem KSÍ býður upp á og er 120 tíma bóklegt og verklegt nám í þjálfun.
  • 22% allra starfandi þjálfara keppnistímabilið 2004 höfðu til þess enga menntun, eða hafa ekki skilað inn upplýsingum um þjálfaramenntun annars staðar frá, t.d. íþróttakennaramenntun eða menntun erlendis frá og eru því skráðir án réttinda í gagnagrunni KSÍ. 
  • Þjálfarar sem eru án réttinda dreifast yfir landið í nokkurn veginn réttu hlutfalli við fjölda félaga og iðkenda á viðkomandi svæði.
  • Ekki var mikill munur á menntun þjálfara karla og kvennaflokka, en þó var þessi munur þjálfurum karlaflokka í vil.
  • Menntun þjálfara fer vaxandi eftir því sem þeir þjálfa eldri aldurshóp.
  • Þessir 327 knattspyrnuþjálfarar þjálfuðu 522 flokka (hver þjálfari þjálfaði að meðaltali 1,6 flokk).
  • Elsti þjálfarinn var Ásgeir Elíasson með mfl. karla hjá Þrótti R. (54 ára gamall).
  • Yngsti þjálfarinn var Inga Birna Friðjónsdóttir þjálfari 4. flokks kvenna hjá Tindastóli (16 ára). 

Félög sem óska eftir að fá ritgerðina geta haft samband við Sigurð Ragnar Eyjólfsson, Fræðslustjóra KSÍ.