• mið. 06. feb. 2008
  • Landslið

Byrjunarlið Íslands gegn Armeníu

A landslið karla
ksi-Akarla

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt byrjunarliðið er mætir Armeníu kl. 16:30 í dag.  Leikurinn er lokaleikur liðsins á æfingamóti sem fram fer á Möltu.  Armenar hafa unnið báða leiki sína til þessa en Íslendingar eru án stiga.

Byrjunarliðið:(4-5-1):

Markvörður: Kjartan Sturluson

Hægri bakvörður: Birkir Már Sævarsson

Vinstri bakvörður: Hermann Hreiðarsson, fyrirliði

Miðverðir: Atli Sveinn Þórarinsson og Ragnar Sigurðsson

Tengiliðir: Bjarni Guðjónsson, Stefán Gíslason og Jónas Guðni Sævarsson

Hægri kantur: Eyjólfur Héðinsson

Vinstri kantur: Tryggvi Guðmundsson

Framherji: Gunnar Heiðar Þorvaldsson

Armenía - Ísland

Leikurinn fer rólega af stað og eftir 25 mínútur er staðan 0-0.  Hvort lið hefur fengið eitt þokkalegt færi.  Tryggvi Guðmundsson átti skalla úr miðjum vítateig sem fór yfir.  Armenar eru heldur meira með boltann en leikurinn er í jafnvægi.  Heldur er kaldara en síðustu daga á Möltu, hitinn um 10 stig.

Það var verið að flauta til hálfleiks en í uppbótartíma áttu Íslendingar góða sókn sem lauk með því að Tryggvi Guðmundsson skoraði af stuttu færi eftir góða sendingu frá Gunnari Heiðari Þorvaldssyni.  Íslendingar höfðu verið sterkari aðilinn síðustu 15 mínúturnar af fyrri hálfleiknum og fengu 2 þokkaleg færi áður en markið kom.  Armenía - Ísland 0-1.

Armenar sóttu meira í upphafi seinni hálfleiks og hafa verið meira með boltann án þess þó að skapa sér nein færi.  Íslenska liðið hefur varist skynsamlega og beðið eftir að færi gefist á skyndisóknum.  Ein slík leit svo dagsins ljós á 72. mínútu þegar að íslenska liðið sótti hratt upp.  Sóknin endaði með því að Jónas Guðni Sævarsson sendi inn á Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem að skoraði.  Staðan eftir 75 mínútur, Armenía - Ísland 0-2.

Leiknum er lokið með sigri Íslendinga með tveimur mörkum gegn engu.  Lokamínútur leiksins voru heldur tíðindalitlar og Armenar ógnuðu ekkert marki Íslendinga.  Besta færið fékk hinsvegar Jónas Guðni Sævarsson á lokamínútunum en náði ekki að skora.