• mið. 07. júl. 2010
  • Fræðsla

Willum og Þorvaldur með UEFA Pro gráðu

UEFA
uefa_merki
Í lok júní útskrifuðust tveir íslenskir þjálfarar með UEFA Pro þjálfaragráðu frá enska knattspyrnusambandinu. Það voru þeir Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, og Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram. Við sama tilefni var nýtt UEFA Pro námskeið sett af stað þar sem Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, er meðal þátttakenda.
 
Knattspyrnusamband Íslands hefur undanfarin ár átt í samstarfi við enska knattspyrnusambandsins þess eðlis að KSÍ fær að senda tvær umsóknir á UEFA Pro námskeiðið í Englandi. Fjórir Íslendingar hafa nú útskrifast með UEFA Pro þjálfaragráðu frá Englandi en auk þeirra Willums og Þorvaldar hafa þeir Guðjón Þórðarson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson báðir útskrifast með UEFA Pro þjálfaragráðu frá Englandi.
 
Íslendingar með UEFA Pro þjálfaragráðu eru því orðnir sjö talsins en auk áðurnefndra aðila eru þeir Atli Eðvaldsson, Teitur Þórðarson og Zeljko Óskar Sankovic með þessa æðstu þjálfaragráðu í Evrópu.
 
Knattspyrnusamband Íslands óskar þeim Willum Þór og Þorvaldi innilega til hamingju með áfangann og óskar jafnframt Heimi Hallgrímssyni góðs gengis á yfirstandandi námskeiði.